Eftir kúnstarinnar reglum - opnun listasýningar í höfuðstöðvum Arion banka

Eftir kúnstarinnar reglum - opnun listasýningar í höfuðstöðvum Arion banka

Laugardaginn 17. nóvember verður opnuð listasýningin Eftir kúnstarinnar reglum í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19. Sýningin hefst kl. 13:30 á fyrirlestri Aldísar Arnardóttur listfræðings sem hún nefnir Sögumenn endurminninga og ævintýraheima.

Á sýningunni verður teflt saman verkum fimm listamanna sem fæddust í kringum aldamótin 1900 og teljast til svokallaðra naívista eða einfara í myndlist og fjögurra listamanna sem fæddir eru á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Þó efnistök og bakgrunnur sé ólíkur má sjá heilmikinn skyldleika í verkum listamannanna. Leikgleði er áberandi og nálgunin oft einlæg og blátt áfram.

Á sýningunni verður að finna verk eftir Eggert Magnússon, Ísleif Konráðsson, Ólöfu Grímeu Þorláksdóttur (Grímu), Sigurlaugu Jónasdóttur og Stefán V. Jónsson (Stórval), sem teljast til naívista, og ný og nýleg verk eftir Egil Sæbjörnsson, Helga Þórsson, Loja Höskuldsson og Þorvald Jónsson.

Sýningin stendur yfir til 15. febrúar 2019 og eru allir hjartanlega velkomnir.