Greiningardeild Arion banka birtir þrjár athyglisverðar greiningar á sjávarútveginum

Greiningardeild Arion banka birtir þrjár athyglisverðar greiningar á sjávarútveginum

Arion banki var einn af aðal styrktaraðilum Sjávarútvegsráðstefnunnar í ár sem haldin var í Hörpu 15. og 16. nóvember. Greiningardeild bankans hefur í kjölfar ráðstefnunnar birt þrjá athyglisverða markaðspunkta með greiningum á sjávarútveginum.

Fyrsta greiningin ber heitið Krónan og sjávarútvegurinn: Í gegnum súrt og sætt og fjallar um sögu íslensku krónunnar og sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir auknum gengisþrýstingi undanfarið vegna þeirra auknu gjaldeyristekna sem ferðaþjónustan hefur skapað fyrir þjóðarbúið. Sterkari króna hefur mikil áhrif á afkomu sjávarútvegsins og þá sérstaklega vegna launakostnaðar en hann nemur nú 51% af rekstrarkostnaði í greininni.

Önnur greiningin fjallar um fjárfestingu í sjávarútvegi. Þar kemur meðal annars fram að árið 2017 hafi verið metár í fjárfestingum í sjávarútvegi. Afkoma af rekstri eins og hún var í fyrra dugir ekki ein og sér til að standa straum af svo miklum fjárfestingum en bætt fjárhagsstaða hefur hins vegar skapað svigrúm til aukinnar lántöku. Hækkandi fjármagnskostnaður og mikil fjárfestingarþörf, vegna innleiðingar tækninýjunga, leiðir til þess að víða getur skapast þörf fyrir aukna stærðarhagkvæmni til að tryggja arðsemi fjárfestinganna.

Þriðja greiningin á sjávarútveginum ber heitið Saman á ný en þar er fjallað um hlutabréfamarkaðinn og sjávarútveginn. Sjávarútvegsfyrirtæki gegndu lykilhlutverki í að byggja upp kauphöllina hér á landi en upp úr aldamótunum féll sjávarútvegurinn í skugga annarra greina og áhugi og stuðningur við sjávarútveg meðal fjárfesta minnkaði. Hlutabréf aðeins tveggja íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru skráð í kauphöll og engin skuldabréf eru skráð. Með fjárfestingu í sjávarútvegi býðst fjárfestum hins vegar samtímis að fjármagna íslenskt atvinnulíf og stuðla að auknu vægi erlends sjóðstreymis í eignasöfnum. Greiningardeildin telur því tímabært að frekari skráning eigin fjár og skulda sjávarútvegs eigi sér stað í kauphöll.