Arion banki er markaðsfyrirtæki ársins

Arion banki er markaðsfyrirtæki ársins

Arion banki er markaðsfyrirtæki ársins 2018. Eliza Jean Reid, forsetafrú, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Auk Arion banka voru Nova, Nox Medical og Dominos tilnefnd til verðlaunanna í ár. Þetta er í fyrsta sinn sem Arion banki hlýtur verðlaunin markaðsfyrirtæki ársins og aðeins í annað skipti sem banki hlýtur þessa viðurkenningu á þeim 27 árum sem verðlaunin hafa verið veitt.

Markaðsverðlaun ÍMARK hlýtur það fyrirtæki sem dómnefnd telur hafa náð framúrskarandi árangri í markaðsmálum undanfarin tvö ár og sannað þykir að hafi náð sýnilegum árangri. Markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku í markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja. Valið byggir á ítarlegu ferli dómnefndar þar sem lagt er mat á fagmennsku við markaðsstarfið, árangur og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar. ÍMARK hefur veitt íslensku markaðsverðlaunin frá árinu 1991.