Arion banki hlýtur tvenn alþjóðleg verðlaun fyrir stafrænar lausnir

Arion banki hlýtur tvenn alþjóðleg verðlaun fyrir stafrænar lausnir

Arion banki hlaut tvenn verðlaun á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni, Banking Technology Awards, sem haldin var í nítjánda sinn sl. fimmtudag.

Arion banki var tilnefndur í tveimur flokkum og atti kappi við banka á borð við Credit Suisse, Bank of America, Barclays, BBVA, Morgan Stanley og Royal Bank of Scotland svo dæmi séu tekin. Flokkarnir voru:

  • Best Tech Overhaul Project / Besta aðferðafræðin við þróun stafrænna lausna
  • Best Use of IT for Lending / Besta stafræna lánalausnin

Arion banki hlaut fyrri verðlaunin fyrir verkefnahraðalinn „Stafræn framtíð“ sem þróunarverkefni bankans fara í gegnum. Viðskiptavinurinn og þarfir hans eru ætíð miðpunktur þeirrar þróunar. Í hverjum hraðli kemur saman starfsfólk úr ólíkum deildum bankans og algengast er að hver hraðall taki um 16 vikur. Niðurstaðan í hvert sinn er ný fullunnin stafræn þjónusta. Í gegnum hraðalinn hafa farið 19 stafrænar lausnir sem viðskiptavinir hafa tekið opnum örmum.

Seinni verðlaunin hlaut Arion fyrir eitt þessara þróunarverkefna, greiðslumat og umsóknarferli íbúðalána á vefnum. Verkefnið gerir viðskiptavinum bankans kleift að fá gilt greiðslumat á þremur mínútum og sækja um íbúðalán á innan við fimmtán mínútum, ferli sem áður tók daga eða vikur.

     

Arion banki var eini bankinn sem fékk verðlaun í tveimur flokkum á hátíðinni. Verðlaunin eru fjórðu alþjóðlegu verðlaunin á árinu sem Arion hlýtur fyrir stafræna bankaþjónustu og bætta þjónustuupplifun.

Verðlaunin eru veitt af enska ráðgjafa- og viðburðastjórnunarfyrirtækinu Informa.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Við erum fyrst og fremst ánægð með hve vel viðskiptavinir okkar hafa tekið þeim nýju stafrænu lausnum sem við höfum kynnt til leiks á undanförnum árum. Því auðvitað er markmið okkar með þróun nýrra lausna fyrst og fremst að bæta þjónustuna og gera hana þægilegri fyrir viðskiptavini. Viðurkenning sem þessi sýnir okkur að við erum framarlega í heiminum þegar kemur að framsækinni og nútímalegri bankaþjónustu. Við erum hvergi nærri hætt og fjöldi nýrra lausna er í farvatninu. Við ætlum okkur að vera áfram leiðandi á Íslandi í stafrænni þjónustu og þau alþjóðlegu verðlaun sem bankinn hefur hlotið eru góð hvatning á þeirri vegferð.“