Sjálfbærni og samfélagsábyrgð á Janúarráðstefnu Festu og Umhverfisráðstefnu Gallup

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð á Janúarráðstefnu Festu og Umhverfisráðstefnu Gallup

Margrét Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringar Arion banka, var með erindi og tók þátt í pallborðsumræðum um ábyrgar fjárfestingar á Janúarráðstefnu Festu sem fram fór í Hörpu 17. janúar síðastliðinn. Ráðstefnan sem er árleg er einn stærsti viðburður á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar fyrirtækja hér á landi þar sem sérfræðingar víða úr atvinnulífinu koma saman.

Margrét fjallaði meðal annars um þau skref sem eignastýring fagfjárfesta hefur tekið varðandi innleiðingu verklags ábyrgra fjárfestinga og felur í sér að við eignastýringu sé horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni og samfélagsábyrgðar; umhverfis- og samfélagsþátta og stjórnarhátta. Eignastýringin hefur nú lokið við að greina öll fyrirtæki sem skráð eru á aðalmarkað kauphallarinnar út frá ófjárhagslegri upplýsingagjöf og átt vel heppnaða fundi með fulltrúum flestra fyrirtækjanna til að fara yfir greininguna. Þannig hefur skapast dýrmætt tækifæri til að ræða ófjárhagslega upplýsingagjöf og framvindu samfélagsábyrgðar við fulltrúa skráðra fyrirtækja sem er mikilvægur liður í hvatningu til fyrirtækjanna í vegferð þeirra að sjálfbærni og samfélagsábyrgð.

Hlédís Sigurðardóttir, verkefnastjóri samfélagsábyrgðar, hélt stutt erindi á Umhverfisráðstefnu Gallup. Hlédís fjallaði þar um þau umhverfistengdu verkefni sem bankinn hefur unnið að frá því hann gerðist aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015. Í takt við efni yfirlýsingarinnar hefur verið lögð áhersla á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs, mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingur um stöðu ofangreindra þátta. Í þessu sambandi hefur Arion banki átt í góðu samstarfi við Klappir Grænar lausnir, en bankinn hefur innleitt heilstæða hugbúnaðarlausn frá þeim, Klappir Core, þar sem upplýsingum er streymt inn kerfið frá gagnalindum með rafrænum hætti og er kerfið forsenda þess að bankinn geti birt umhverfisuppgjör sem gert hefur verið frá árinu 2016.

Hér má sjá erindi Hlédísar.
Hér má sjá umfjöllun um helstu niðurstöður umhverfiskönnunar Gallup.