Ábyrgir og arðsamir viðskiptahættir

Við viljum vera til fyrirmyndar þegar kemur að ábyrgum rekstri og góðum viðskiptaháttum. Í allri ákvarðanatöku metum við þá margvíslegu hagsmuni sem undir liggja og horfum til langs tíma, ekki síður en skamms. Við leggjum mat á þann ávinning og þá áhættu sem ákvarðanir og lánveitingar geta falið í sér með ólíka hagsmuni í huga.

Starfsfólk Arion banka er meðvitað um þá staðreynd að starfsemi bankans hefur áhrif á ólíka hagsmunaaðila og samfélagið í heild sinni. Við höfum sett okkur starfsreglur, siðareglur og stefnur um ólíka þætti starfseminnar, s.s. um upplýsingagjöf, upplýsingaöryggi, peningaþvætti og jafnréttismál.

Mikilvægur þáttur í starfsemi bankans og ábyrgð hans gagnvart samfélaginu, er að stýra áhættu og taka upplýstar ákvarðanir. Áhættustýring er því grundvallarþáttur í starfi bankans og samfélagsábyrgð hans. Stefna bankans er að hafa virka áhættustýringu sem felur í sér að greina og mæla verulega áhættu og grípa til aðgerða ef hún fer út fyrir skilgreind mörk.

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Arion banki er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt að undangengnu formlegu mati sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út. Bankinn hlaut viðurkenninguna í kjölfar ítarlegrar úttektar á stjórnarháttum bankans, s.s. starfsháttum stjórnar, undirnefnda og stjórnenda, sem framkvæmd var af KPMG ehf. haustið 2015. Viðurkenningin gildir í þrjú ár nema verulegar breytingar verði á stjórn eða eignarhaldi bankans.

Ábyrgar fjárfestingar

Árið 2017 gerðist Arion banki aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI). Aðild bankans er liður í aukinni áherslu bankans á málefni samfélagsábyrgðar og hefur bankinn skuldbundið sig til að leggja áherslu á umhverfis- og samfélagsleg málefni auk góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum og við fjárfestingarákvarðanir.

Meiri upplýsingar um samfélagsábyrgð