Þægilegri bankaþjónusta

Við viljum að viðskiptavinir okkar geti átt í viðskiptum hvar og hvenær sem er, þegar þeim hentar. Þess vegna höfum við að undanförnu lagt ríka áherslu á að þróa og kynna nýjar stafrænar lausnir og höfum einsett okkur að vera fremsti stafræni bankinn á Íslandi.

Við hlustum á rödd viðskiptavina okkar því þeirra ánægja og upplifun skiptir okkur máli. Við erum þakklát fyrir þær ábendingar sem okkur berast. Til þess að halda utan um það sem betur mætti fara í samskiptum okkar við viðskiptavini og almennt í starfseminni skráum við allar ábendingar og vinnum úr þeim með markvissum hætti. Við skráum að sjálfsögðu líka allar hugmyndir og hrós og komum í réttan farveg.

Fræðsla

Við bjóðum viðskiptavinum vandaða fjármálaráðgjöf og leggjum sérstaka áherslu á fjármálalæsi ungmenna. Við tökum virkan þátt í umræðu um fjármál og efnahagslíf í landinu og stuðlum að opinni og upplýstri umræðu.

Fræðsluverkefni og þátttaka í viðburðum árið 2017

  • Jón Jónsson fræddi á annað hundrað unglinga á aldrinum 14-16 ára um fjármál.
  • Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, hélt opna fræðslufundi þar sem viðskiptavinum Arion banka og öðrum bauðst að sækja sér fjármálafræðslu sér að kostnaðarlausu.
  • Bíbí, Blaki og Ari úr Sparilandi mættu á bæjarhátíðir víða um land, Arion banka fótboltamótið sem haldið var í Víkinni, Fossvogi, og fleiri skemmtilega viðburði. Þau eru nú orðin vel þekkt hjá yngstu kynslóðinni. Þá var lagður grunnur að fræðsluátaki fyrir yngstu kynslóðina í tengslum við Spariland.
  • Fjöldi viðskiptavina og annarra gesta sótti fræðslufundi um lífeyrissparnað á vegum bankans.
  • Greiningardeild Arion banka hélt á annan tug funda sem vel yfir þúsund gestir sóttu. Sumir fundanna voru sendir út í beinni útsendingu á Facebook-síðu Arion banka sem gaf enn fleiri aðilum kost á að fylgjast með.
  • Auk funda fór starfsfólk greiningardeildar í fjölda viðtala við fjölmiðla auk þess að gefa út efni og halda erindi á fjölda funda og ráðstefna.
  • Samtök fjármálafyrirtækja standa fyrir verkefni sem nefnist Fjármálavit og lítur að því að auka fjármálalæsi unglinga á efsta stigi grunnskóla og er Arion banki þátttakandi í því verkefni.
  • Yfir 8.000 gestir sóttu fræðslufundi, ráðstefnur og aðra viðburði á vegum bankans á árinu 2017. Auk þess tók Arion banki þátt í fjölmörgum ráðstefnum og sýningum utan bankans. 

Samantekt um samfélagsábyrgð Arion banka