Mannauðsstefna

Í Arion banka starfar þétt liðsheild öflugs starfsfólks. Við erum stolt af vinnustað okkar og vinnum stöðugt að því að bæta okkar árangur og þjónustu við viðskiptavini. Arion banki er tengslabanki og við leggjum okkur fram um að byggja upp góð tengsl við viðskiptavini og samstarfsfólk okkar. Við vinnum af fagmennsku og leitumst við að hugsa í lausnum. Við sýnum sveigjanleika, framsækni og áræðni í öllum okkar verkum.

Við veljum rétta fólkið

Við leggjum áherslu á að innan bankans sé réttur maður á réttum stað. Eftirsóknarverðir eiginleikar í fari starfsmanna eru frumkvæði, sjálfstæði, vilji til að takast á við breytingar, þjónustulund og samskiptahæfni. Við tökum vel á móti nýjum starfsmönnum og veitum nýliðum markvissa þjálfun og fræðslu. Við hvetjum til og styðjum við fjölbreytni í starfsmannahópum.

Við leitumst við að auglýsa laus störf til umsóknar á innra neti, vefsíðum bankans og öðrum miðlum eftir atvikum. Ráðið er í störf eftir vel skilgreindum ráðningarferlum í samvinnu við stjórnendur. Við ráðningar er auk framangreindra eiginleika meðal annars tekið mið af faglegri þekkingu, reynslu, menntun og áhugasviði. Einnig leggjum við áherslu á að umsækjendur uppfylli þá eiginleika sem hornsteinar bankans kveða á um.

Við erum í góðu samstarfi við menntastofnanir landsins og veljum hæfileikaríkt fólk til sumarstarfa. Þannig fáum við tækifæri til að kynnast efnilegu ungu fólki sem um leið öðlast reynslu og leggur jafnvel grunn að framtíðarstarfi hjá bankanum.

Við viljum hvetjandi, jákvætt og árangursdrifið vinnuumhverfi

Við vinnum markvisst að því að skapa starfsumhverfi þar sem við getum öll vaxið í starfi og eflt kunnáttu okkar. Við leggjum hvort öðru lið við dagleg störf og stuðlum að góðum starfsanda. Við áttum okkur á því að aðgerðir okkar – eða aðgerðarleysi – hafa áhrif á okkar samstarfsfólk og upplifun viðskiptavina af þjónustu bankans. Markmið okkar er að fara fram úr væntingum, bæði samstarfsfólks og viðskiptavina.

Arion banki er þekkingarsamfélag, skipað starfsfólki með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Við sýnum frumkvæði og leitumst stöðugt við að finna ný tækifæri til framþróunar með það að markmiði að efla bankann og okkur sjálf. Við hvetjum til starfsþróunar og bjóðum upp á metnaðarfulla fræðsluáætlun sem veitir öllum starfsmönnum tækifæri til að auka þekkingu sína og færni. Leitast er við að veita starfsmönnum tækifæri til að vaxa til meiri ábyrgðar og stjórnunarstarfa innan bankans eða veita tilfærslu í önnur störf og verkefni.

Lögð er áhersla á góða vinnuaðstöðu og einkennist vinnuumhverfi bankans af opnum vinnurýmum þar sem tækifæri eru til að deila þekkingu og upplýsingum þar sem við á. Við framkvæmum vinnustaðagreiningar á hverju ári með það að markmiði að efla starfsumhverfið og starfsánægju. Mikilvægt er að gott jafnvægi ríki á milli vinnu og einkalífs og er starfsfólk einnig hvatt með ýmsum hætti til að rækta eigin heilsu. Við líðum ekki einelti eða kynferðislega áreitni né önnur óæskileg samskipti. Það er á ábyrgð okkar allra að koma í veg fyrir slíka hegðun á vinnustaðnum.

Félagslíf starfsfólks Arion banka er öflugt og starfsmannafélagið Skjöldur annast fjölmargar vel sóttar skemmtanir og fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Starfsfólk á þess einnig kost að leigja sumarhús og íbúðir víðsvegar um landið.

Við leggjum áherslu á öfluga forystu og góða stjórnun

Rík áhersla er á að hjá bankanum starfi öflugir stjórnendur með skýra framtíðarsýn fyrir sínar starfseiningar. Unnið er markvisst að því að þroska leiðtogafærni stjórnenda.

Við teljum mikilvægt að stjórnendur bankans búi yfir framúrskarandi samskiptahæfni, gangi á undan með góðu fordæmi, hvetji samstarfsfólk til sjálfstæðis í starfi og veiti þeim umboð til athafna. Starfsfólk fær hvatningu stjórnenda til að sýna frumkvæði og sækja fram í daglegum verkefnum. Það er einnig hlutverk stjórnenda að gæta þess að starfsfólk fái tækifæri til að vaxa í starfi með krefjandi og fjölbreyttum viðfangsefnum. Við leggjum áherslu á að traust ríki milli stjórnenda og starfsfólks og að regluleg og gagnleg endurgjöf sé ávallt hluti af starfi stjórnandans.

Við höfum skýra sýn í jafnréttismálum

Stefna bankans er að tryggja jöfn tækifæri og kjör starfsfólks af báðum kynjum. Hvers kyns mismunun á grundvelli kynferðis er í andstöðu við jafnréttisstefnu bankans og jafnréttislög. Bankastjóri Arion banka ber ábyrgð á jafnréttisstefnu en jafnréttisnefnd sér um að fylgja stefnunni eftir í samvinnu við stjórnendur. Við hvetjum til og styðjum við fjölbreytni í starfsmannahópum.

Við höfum mótað jafnréttisáætlun þar sem útfærðar hafa verið aðgerðir m.a. vegna launajafnréttis, jafnréttis í tengslum við ráðningar og nefndarsetu og starfsþróunar. Í jafnréttisáætlun bankans er einnig kveðið á um að starfsfólki skuli gert kleift að samræma starfs- og fjölskylduskyldur sínar eins og kostur er og karlar jafnt sem konur skulu hvattir til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn.

Við sýnum ábyrgð

Við þekkjum hlutverk okkar og öxlum ábyrgð á verkefnum okkar og ákvörðunum.

Við gerum gagn. Við túlkum ábyrgð okkar vítt og tryggjum að engin verkefni falli milli skips og bryggju. Við stöndum við orð okkar og ljúkum því sem að okkur snýr.

Við látum verkin tala. Sérhver starfsmaður Arion banka er mikilvægur hlekkur í traustri keðju og sýnir ábyrgð í störfum sínum. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að skapa góðan liðsanda og sýna hvert öðru virðingu.

Við komum hreint fram. Opin skoðanaskipti eru forsendur árangurs og góðra verka. Þannig leggjum við okkur fram um að miðla upplýsingum til samstarfsfólks okkar. Með uppbyggilegum hætti bendum við á það sem betur má fara og erum sjálf móttækileg fyrir ábendingum annarra.

Við gætum þess að hrósa hvert öðru þegar verk eru vel unnin. Við erum heiðarleg í störfum okkar, gætum ávallt trúnaðar og förum eftir starfs- og siðareglum í hvívetna.