Stjórnendur

Formaður

Eva Cederbalk

Eva er fædd árið 1952. Hún er sænsk og býr í Svíþjóð. Eva var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á hluthafafundi 23. júní 2017. Hún er hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Eva er formaður stjórnar og formaður lánanefndar stjórnar.

Eva er með meistaragráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics.

Eva er í dag forstjóri Cederbalk Consulting AB. Hún starfaði hjá Skandinaviska Enskilda Banken AB á árunum 1975-1998 þar sem hún sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum og var forstjóri Netgiro Systems AB 2002-2003 og SBAB Bank AB 2004-2011. Eva starfaði jafnframt hjá If Skadeförsäkring AB á árunum 2000-2001 og sem framkvæmdastjóri hjá Dial Försäkring AB frá 1998 til 2000. Eva hefur setið í fjölmörgum stjórnum og var meðal annars stjórnarformaður Klarna AB 2009-2016 og sat í stjórn Gimi AB 2016-2017 og Íslandsbanka 2015-2016. Í dag situr Eva í stjórn National Bank of Greece Group, Svolder og Ikano Group S.A.

Varaformaður

Brynjólfur Bjarnason

Brynjólfur er fæddur árið 1946. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi 20. nóvember 2014. Hann er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Brynjólfur er varformaður stjórnar, formaður endurskoðunarnefndar stjórnar og situr í lánanefnd stjórnar.

Brynjólfur útskrifaðist með MBA-gráðu frá University of Minnesota árið 1973. Hann útskrifaðist með cand.oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1971.

Brynjólfur var framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands frá 2012 til 2014. Á árunum 2007 til 2010 starfaði hann sem forstjóri Skipta. Brynjólfur var forstjóri Símans frá 2002 til 2007. Hann starfaði sem forstjóri Granda hf. frá 1984 til 2002. Frá 1976 til 1983 starfaði Brynjólfur sem framkvæmdastjóri AB bókaútgáfu. Brynjólfur var auk þess forstöðumaður hagdeildar VSÍ á árunum 1973 til 1976. Brynjólfur hefur mikla reynslu af stjórnarsetu og hefur setið í fjölmörgum stjórnum í gegnum tíðina og gegnt stjórnarformennsku í nokkrum þeirra. 

Í dag situr Brynjólfur sem varamaður í stjórn Fergusson ehf. og stjórnarmaður í Marinvest ehf. og ISAL hf.

Stjórnarmaður 

Benedikt Gíslason

Benedikt er fæddur árið 1974. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi 5. september 2018. Benedikt er ekki hluthafi í bankanum og er háður stjórnarmaður. Benedikt situr í áhættunefnd stjórnar og starfskjaranefnd stjórnar.

Benedikt útskrifaðist með C.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1998.

Benedikt starfar sem ráðgjafi hjá Kaupþingi. Hann starfaði áður sem ráðgjafi hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka auk þess að hafa sinnt margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka, m.a. sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs og síðar forstjóri. Þá starfaði Benedikt áður sem framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og hjá eiginviðskiptum og markaðsviðskiptum hjá Íslenska Fjárfestingarbankanum (e. The Icelandic Investment Bank – FBA), síðar Íslandsbanki-FBA. Benedikt sat áður í stjórn Kaupþings og VÍS. Í dag starfar Benedikt sem ráðgjafi og situr í stjórn Genís hf., EC Hugbúnaðar ehf. og EC Software Sweden auk þess að vera varamaður í stjórn Brekkuás ehf.

Stjórnarmaður 

Herdís Dröfn Fjeldsted

Herdís er fædd árið 1971. Hún var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á aðalfundi 15. mars 2018. Herdís er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Herdís situr í endurskoðunarnefnd og er formaður starfskjaranefndar stjórnar.

Herdís útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðamarkaðssetningu úr Tækniháskóla Íslands árið 2004 og með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Herdís er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum.

Herdís starfaði sem forstjóri Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) frá 2014 en fyrir þann tíma starfaði hún sem fjárfestingarstjóri hjá Framtakssjóði Íslands frá árinu 2010. Áður en hún hóf störf hjá Framtakssjóði Íslands starfaði hún sem sérfræðingur í fjárfestingaráðgjöf hjá Thule Investments á árunum 2004-2010. Herdís hefur einnig setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja m.a. sem stjórnarformaður VÍS hf. frá 2015 til 2017, varaformaður stjórnar Promens frá 2011 til 2015 og sem stjórnarmaður hjá Invent Farma frá 2013 til 2014, Medicopack A/S frá 2014 til 2016, Icelandair Group frá 2011 til 2014 og Copeinca AS frá 2013 til 2014. Í dag siturHerdís í stjórn Íslensk-kanadíska viðskiptaráðsins.

Stjórnarmaður

Måns Höglund

Måns er fæddur árið 1951. Hann er sænskur og býr í Portúgal. Hann var fyrst kjörinn sem aðalmaður í stjórn Arion banka á aðalfundi hans 24. mars 2011. Hann er hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Måns er formaður áhættunefndar stjórnar og situr í lánanefnd stjórnar.

Måns útskrifaðist með BS-gráðu í hagfræði frá Stockholm School of Economics árið 1975.

Frá 2002 til 2011 starfaði Måns hjá Swedish Export Credit Corporation (SEK) sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu með sæti í framkvæmdastjórn bankans. Á árunum 1999 til 2002 vann hann fyrir bæði Unibank (sem forstöðumaður yfir Svíþjóð) og Nordea (sem forstöðumaður einkabankaþjónustu, Svíþjóð). Frá 1991 til 1999 starfaði Måns hjá Swedbank, m.a. sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs. Árið 1984 hóf hann störf hjá Götabanken í London en færði sig svo til Stokkhólms innan sama banka árið 1989 þar sem hann starfaði sem forstöðumaður alþjóðafjármálasviðs til 1991. Måns gegndi ýmsum störfum hjá Hambros Bank í London frá 1977 til 1984, m.a. sem svæðisstjóri fyrir Danmörku og Ísland í tvö ár. Áður starfaði hann við kennslu og vann við rannsóknir hjá Stockholm School of Economics.

Stjórnarmaður

Steinunn Kristín Þórðardóttir

Steinunn er fædd árið 1972. Hún var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á hluthafafundi 30. nóvember 2017. Steinunn er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Steinunn situr í áhættunefnd stjórnar og lánanefnd stjórnar.

Steinunn er með MIM gráðu frá Thunderbird og BA gráðu í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálafræði frá University of South Carolina.

Steinunn Kristín starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Beringer Finance í Noregi á árunum 2015-2017, auk þess að gegna stöðu forstöðumanns alþjóðadeildar fyrirtækisins á sviði matvæla og sjávarfangs. Árið 2010 stofnaði Steinunn ráðgjafafyrirtækið Akton AS í Noregi og var framkvæmdastjóri þess til ársins 2015. Hún starfaði hjá Íslandsbanka (síðar Glitni) á árunum 2001-2008, fyrst sem forstöðumaður alþjóðalánveitinga og síðar sem framkvæmdastjóri bankans í Bretlandi. Á árunum 1999 til 2001 starfaði Steinunn hjá Enron Corporation. Steinunn sat í stjórn Silver Green AS og Silver Green TC AS í Noregi frá 2011 til 2013, Versobank AS í Eistlandi frá 2012 til 2013, stjórn Bankasýslu ríkisins frá mars 2011 til október 2011 og sem varamaður í stjórn Kredittbanken, síðar Glitnir Norway, á árunum 2005 til 2008.

Í dag er Steinunn stjórnarformaður Acton Capital AS og Akton AS og situr í stjórn Cloud Insurance AS. Hún situr jafnframt í Bresk-íslenska viðskiptaráðinu, er varaformaður í Norsk-íslenska viðskiptaráðinu og meðlimur í Exedra, vettvangi umræðna fyrir fjölbreyttan hóp kvenna í atvinnulífinu. Þá situr Steinunn í tilnefningarnefnd Símans.

Varamenn stjórnar

  • Ólafur Örn Svansson, hæstaréttarlögmaður
  • Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, lögfræðingur
  • Þórarinn Þorgeirsson, héraðsdómslögmaður

Ólafur Örn Svansson, hæstaréttarlögmaður og varamaður í stjórn, situr í starfskjaranefnd stjórnar.
Stjórn hefur jafnframt skipað Heimi Þorsteinsson, löggildan endurskoðanda, í endurskoðunarnefnd stjórnar.

Bankastjóri

Höskuldur H. Ólafsson

Höskuldur er fæddur árið 1959. Hann tók við stöðu bankastjóra Arion banka í júní 2010.

Áður, eða frá árinu 2006, gegndi Höskuldur starfi forstjóra Valitor hf. Hann starfaði hjá Eimskip í 17 ár þar sem hann sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum, þar á meðal stöðu aðstoðarforstjóra fyrirtækisins. Höskuldur hefur jafnframt setið í stjórnum fjölmargra félaga og fyrirtækja hér á landi og erlendis.

Höskuldur útskrifaðist með cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1987.

Framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs

Gísli S. Óttarsson

Gísli er fæddur árið 1963. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra áhættustýringarsviðs Arion banka í apríl 2009.

Á árunum 2006 til 2009 starfaði Gísli í áhættustýringu Kaupþings banka þar sem hann gegndi stöðu forstöðumanns innan rannsóknar- og hönnunardeildar. Frá 2001 til 2006 stýrði Gísli þróun verkfræðihugbúnaðar fyrir MSC.Software í Bandaríkjunum. Frá 1994 til 2001 stýrði Gísli þróun verkfræðiforritsins ADAMS fyrir Mechanical Dynamics Inc. í Bandaríkjunum.

Gísli hlaut doktorsgráðu í vélaverkfræði árið 1994 frá University of Michigan og meistaragráðu í hagnýtri aflfræði árið 1989 frá sama skóla. Árið 1986 lauk Gísli prófi í byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs 

Iða Brá Benediktsdóttir

Iða Brá Benediktsdóttir er fædd 1976. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs í júlí 2017.

Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 1999. Frá þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans, nú síðast sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017. Áður hafði Iða Brá m.a. verið forstöðumaður samskiptasviðs, einkabankaþjónustu og í fjárstýringu bankans. Iða hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja; Sparisjóðs Ólafsfjarðar, AFL – sparisjóðs, fasteignafélagsins Landfestum og HB Granda hf.

Iða Brá er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með MSc í fjármálum frá Rotterdam School of Management í Hollandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri lögfræðisviðs 

Jónína S. Lárusdóttir

Jónína er fædd árið 1970. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Arion banka í nóvember 2010.

Jónína var ráðuneytisstjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu frá 2007 til 2010. Á árunum 2004 til 2007 var hún skrifstofustjóri almennrar skrifstofu í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Frá 2000 til 2004 starfaði Jónína í viðskiptaráðuneytinu sem deildarsérfræðingur á skrifstofu fjármagnsmarkaðar. Á árunum 1996 til 2000 starfaði hún sem lögmaður hjá A&P lögmönnum. Jónína hefur setið í og stýrt fjölmörgum nefndum, m.a. á vegum forsætisráðuneytisins og starfað sem stundakennari, m.a. við lagadeild Háskóla Íslands. Hún var formaður Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á árunum 2003 og 2004. Jónína situr í stjórn Valitor hf.

Jónína lauk meistaraprófi frá London School of Economics and Political Science árið 2000. Hún brautskráðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996 og fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi ári síðar.

Framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs

Lýður Þór Þorgeirsson

Lýður er fæddur árið 1976. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs Arion banka í október 2017.

Frá árinu 2010 til 2017 starfaði Lýður hjá GAMMA Capital Management hf., fyrst sem sjóðsstjóri ýmissa fagfjárfestasjóða og sem framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga frá árinu 2013. Lýður starfaði hjá Kaupþingi frá 2009 til 2010 þar sem hann var lánastjóri erlendra fyrirtækjalána en áður starfaði hann við fyrirtækjaráðgjöf hjá Arion banka og forvera hans frá árinu 2007. Á árunum 2000-2005 starfaði Lýður hjá Íslandsbanka við skuldsetta fjármögnun fyrirtækja og áhættustýringu.

Lýður er með MBA gráðu frá MIT Sloan School of Management og B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann er auk þess með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs

Margrét Sveinsdóttir

Margrét er fædd árið 1960. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs Arion banka í febrúar 2009.

Frá 2007 til 2009 starfaði hún sem forstöðumaður samskipta við erlendar fjármálastofnanir innan fjárstýringar Glitnis hf./Nýja Glitnis. Á árunum 1990 til 2007 starfaði Margrét sem forstöðumaður Verðbréfavaktar ásamt eignastýringar einstaklinga hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka, síðar Eignastýringar Glitnis hf. Frá árinu 1985 til 1988 starfaði hún í lánadeild Iðnaðarbanka Íslands þar sem hún var um tíma forstöðumaður. Margrét hefur setið í fjölmörgum stjórnum og má þar nefna: Stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fyrir hönd SFF, stjórn OKKAR líftrygginga hf. og í stjórnum nokkurra sjóðafyrirtækja í Lúxemborg.

Margrét útskrifaðist með MBA-gráðu frá Babson College í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1990 og cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1986. Hún er einnig með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs

Rakel Óttarsdóttir

Rakel er fædd árið 1973. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs í júlí 2016.

Í desember 2015 tók Rakel tímabundið við starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Arion banka en frá árinu 2011 starfaði hún sem framkvæmdastjóri þróunar- og markaðssviðs bankans.

Áður starfaði Rakel sem forstöðumaður verkefnastofu á þróunar- og markaðssviði Arion banka, frá 2010 til 2011. Á árunum 2005 til 2010 gegndi hún starfi viðskiptastjóra á upplýsingatæknisviði Kaupþings banka. Áður starfaði hún sem rekstrar- og þróunarstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu TM Software.

Rakel útskrifaðist með MBA-gráðu frá Duke University í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum árið 2002 og sem tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1997.

Framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs

Rúnar Magni Jónsson

Rúnar Magni Jónsson er fæddur árið 1976. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Arion banka í október 2018.

Rúnar Magni hefur starfað í fimmtán ár hjá bankanum og fyrirrennurum hans, lengst af á fyrirtækjasviði. Hann starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Kaupþingi á árinum 2000-2002 og hóf störf sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði árið 2005. Rúnar tók svo við stöðu forstöðumanns á fyrirtækjasviði árið 2014 sem hann gegndi þar til hann tók við starfi framkvæmdastjóra.

Rúnar Magni er með meistarapróf í alþjóða markaðmálum og stjórnun (IMM) frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er jafnframt með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Stefán Pétursson

Stefán er fæddur árið 1963. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Arion banka í ágúst 2010.

Stefán hóf störf hjá Landsvirkjun 1991, fyrst sem yfirmaður lánamála en sem deildarstjóri fjármáladeildar frá 1995. Frá árinu 2002 var Stefán framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar auk þess sem hann sat í samninganefnd fyrirtækisins við orkufrekan iðnað. Stefán var í leyfi frá Landsvirkjun á árinu 2008 er hann stýrði fjárfestingarfélaginu Hydro-Kraft Invest hf. Á árunum 1986 til 1989 starfaði Stefán sem skrifstofustjóri hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Stefán hefur gegnt fjölda trúnaðar- og stjórnunarstarfa á undanförnum árum. Hann situr nú í stjórn Landfesta hf. og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta fyrir hönd SFF. Stefán situr í stjórn Valitor hf.

Stefán útskrifaðist með MBA-gráðu frá Babson College í Massachusetts í Bandaríkjunum árið 1991 og cand. oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1986.