Leiðbeiningar til viðskiptavina
vegna ferða sem ekki eru farnar

Ef fyrirhuguð ferð fellur niður eða útséð að ekki er hægt að fara í hana ráðleggjum við viðskiptavinum okkar eftirfarandi:

1. Skoðið afpöntunarskilmála sem voru í gildi við kaup þjónustu og hafi samband við ferðaþjónustuaðila til að afpanta.

Fyrsta skrefið er ávallt að skoða afpöntunarskilmála sem voru í gildi við kaup á þjónustu og hafa samband við ferðaþjónustuaðila til að afpanta ferðina. Margir ferðaþjónustuaðilar bjóða upp á tilfærslu á ferðadagsetningum með engum eða litlum kostnaði, aðrir endurgreiða og einhverjir bjóða upp á inneign eða gjafabréf*.

Ef ferðaþjónustuaðili hefur sjálfur hætt við ferð svo hún stendur þér ekki til boða, svo sem búið er að loka hóteli eða fella niður flug þá ber ferðaþjónustuaðila að bæta þér upp ferðina með því að leyfa tilfærslu á ferðadagsetningum eða með endurgreiðslu.

Gott er að leita upplýsinga á heimasíðu ferðaþjónustuaðila og hefur Icelandair til dæmis birt gagnlegar upplýsingar um réttindi flugfarþega og hvað þeir eiga að gera ef flug fellur niður.

2. Ef ferðaþjónustuaðili neitar að endurgreiða þar sem í skilmálum bókunar kemur fram að ekki sé hægt að fá endurgreitt („non refundable“) þá skal athuga hvort hægt sé að fá bætur úr ferðatryggingu kortsins eða heimilistryggingu.

Ef ferðaþjónustuaðili neitar endurgreiðslu á forsendu þess að skilmálar bókunar kveða á um að þjónustan fáist ekki endurgreidd, þjónustan stendur enn til boða (dæmi hótel er opið fyrir viðskiptavinum) en ferðabann eða lokuð landamæri koma í veg fyrir ferðina er hægt að skoða hvort réttur sé til bóta úr ferðatryggingu kortsins eða heimilistryggingu.

Vörður birtir nytsamar upplýsingar á heimasíðu sinni varðandi hvaða tilvik eru tryggð í gegnum tryggingar korta. Athugið að mismunandi tryggingarskilmálar eru á milli kortategunda, en þú getur kynnt þér tryggingarskilmála korta sem eru útgefin af Arion banka hér. Mikilvægt er að skila öllum gögnum með beiðni um bætur til Varðar. Vörður leiðbeinir með hvaða gögn þurfa að fylgja, en dæmi um gögn sem gæti verið óskað eftir eru læknisvottorð ef við á, afrit af bókun og bókunarskilmálum og afrit af samskiptum við þjónustuaðila þar sem hann neitar endurgreiðslu og fram kemur á hvaða forsendum endurgreiðslu er neitað.

3. Ef bókunarskilmálar heimila afbókun eða breytingar á bókun innan tilskilins tímafrests án kostnaðar en ferðaþjónustuaðili verður ekki við þeirri ósk þá er hægt að senda beiðni til Arion banka um að skoða hvort málið sé endurkröfuhæft í gegnum tryggingar greiðslukorts.

 Með endurkröfubeiðninni þurfa að fylgja öll viðeigandi gögn, útfyllt og undirritað endurkröfueyðublað, afrit af bókun og bókunarskilmálum, afrit af afbókun sem sýnir hvernig og hvenær var afbókað og afrit af samskiptum við seljanda þar sem hann neitar endurgreiðslu eða svarar ekki fyrirspurnum sem sendar eru á hann.

4. Ef ferðaþjónustuaðili er ófær um að veita keypta þjónustu þar sem hann hefur lokað tímabundið eða farið í gjaldþrot og endurgreiðsla á ferðakostnaði fæst ekki frá honum þrátt fyrir beiðni þess efnis þá er hægt að senda beiðni til Arion banka um að skoða hvort málið sé endurkröfuhæft í gegnum tryggingar greiðslukortsins.

Með endurkröfubeiðninni þurfa að fylgja öll viðeigandi gögn, útfyllt og undirritað endurkröfueyðublað, staðfesting á því að ferðaþjónustuaðili er kominn í gjaldþrot eða hafi lokað fyrir eða fellt niður þá þjónustu sem keypt var.

  • Dæmi: Ferðaþjónustuaðili lokar hóteli tímabundið og býður ekki upp á endurgreiðslu eða tilfærslu á bókunardagsetningum.

  • Dæmi: Tilkynning hefur borist um að ferðaþjónustuaðili sé kominn í gjaldþrotameðferð og mun ekki geta veitt keypta þjónustu.

Einnig þarf að fylgja endurkröfubeiðninni afrit af bókun, afrit af afbókun ef við á, og afrit af samskiptum við seljanda þar sem hann neitar endurgreiðslu eða svarar ekki fyrirspurnum sem sendar eru til hans.

Athugið að ef ferð er bókuð í gegnum íslenska ferðaskrifstofu þá ber fyrst að snúa sér til ferðaskrifstofunnar vegna endurgreiðslu. Ef íslensk ferðaskrifstofa fer í gjaldþrot þá þarf að byrja að sækja um endurgreiðslu í tryggingarfé ferðaskrifstofunnar í gegnum Ferðamálastofu.

*Gjafabréf

Sérstök athygli er vakin á því að ef söluaðili býður inneignarnótu eða gjafabréf í staðinn fyrir endurgreiðslu og korthafi ákveður að þiggja inneignarnótuna eða gjafabréfið þá afsalar hann sér endurkröfuréttinum, þar sem ekki er endurkröfuréttur á inneignarnótur eða gjafabréf samkvæmt reglum VISA. Vísast hér sérstaklega til umfjöllunar neytendasamtakanna um efnið: ns.is/2020/03/19/varast-ber-inneignarnotur/

Fyrirvari: Upplýsingar þessar eru teknar saman og fengnar frá öðrum aðilum en Arion banka og settar hér fram til hagræðis fyrir korthafa. Arion banki ábyrgist ekki réttmæti upplýsinganna þar sem þær eru ekki frá bankanum komnar nema að litlu leyti.