Leiðbeiningar til viðskiptavina
vegna ferða sem ekki eru farnar


Fyrsta skrefið er að hafa samband við söluaðila 

Hvort sem um er að ræða upplýsingar um innkaup eða til að óska eftir endurgreiðslu þá þurfa viðskiptavinir ávallt að byrja á því að hafa samband við söluaðila. Söluaðilar geta venjulega svarað og leyst úr erindum viðskiptavina.

Rannsakaðu

Flest fyrirtæki setja gagnlegar upplýsingar á vefsíður sínar. Skoðaðu vefsíðu söluaðila til að átta þig á þeim möguleikum sem eru í boði og hvernig best er að hafa samband. Símtal, netspjall, tölvupóstur og vefform eru dæmi um mismunandi leiðir til samskipta. Söluaðilar tilgreina einnig gjarnan á vefsíðum sínum hvaða úrræði þeir bjóða upp á fyrir viðskiptavini, til dæmis hvort möguleiki er á endurgreiðslu, inneign, gjafabréfi eða tilfærslu á ferðadagsetningum.

Sýndu þolinmæði

Það að bíða eftir svörum er aldrei gaman, en mundu að það er mikill fjöldi viðskiptavina sem eru rétt eins og þú að hafa samband við seljendur sem eru að gera sitt besta undir miklu álagi.

Þetta eru fordæmalausir tímar svo gerðu ráð fyrir að afgreiðslur sem tóku áður skamma stund geti tekið lengri tíma.

Spyrðu spurninga

Þegar þú nærð sambandi við seljendur spyrðu spurninga um hvernig erindið þitt verður afgreitt. Hver er áætlaður tími þar til þú færð endurgreiðslu, sent gjafabréf o.s.frv. Ef þú ert í samskiptum við söluaðila á netinu geymdu þá afrit af samskiptunum ykkar. Ef þú ert í samskiptum í gegnum síma, skráðu þá niður hvenær þú hringdir, við hvern þú talaðir og efni símtals.

Ef mál leysist ekki í samskiptum við söluaðila

Ef mál leysist ekki í samskiptum við söluaðila þá getur þú athugað hvort þú eigir rétt á endurgreiðslu í gegnum endurkröfuferli Arion banka eða í gegnum tryggingar, svo sem heimilistryggingu eða kortatryggingar Arion banka hjá Verði.

Endurkröfuferli kortsins

Til þess að hægt sé að hefja endurkröfuferli í gegnum kortið er skilyrði að búið sé að hafa samband við söluaðila til að óska eftir endurgreiðslu og fá svar frá honum.
Senda þarf Arion banka útfyllt og undirritað endurkröfueyðublað, bókunargögn þar sem skilmálar við bókun koma fram og afrit af samskiptum við söluaðila þar sem hann neitar endurgreiðslu.

Athugið að ef það fylgja ekki öll gögn með endurkröfubeiðni í upphafi þá getur endurkröfunni verið hafnað. 

Bætur hjá tryggingafélagi

Til þess að hægt sé að sækja bætur til tryggingafélags er skilyrði að búið sé að hafa samband við söluaðila til að óska eftir endurgreiðslu og fá svar frá honum.

Á heimasíðu Varðar eru góðar upplýsingar varðandi hvað er innifalið í kortatryggingum Arion banka.

Athugið að ef það fylgja ekki viðeigandi gögn með beiðni til tryggingafélags þá getur bótagreiðslu verið hafnað.

Lagalegur réttur neytenda

Rétt er að benda á að ef ekki er réttur á endurgreiðslu skv. skilmálum þeim sem giltu um þjónustuna, eða skv. endurkröfuferli / tryggingum kortsins þá þýðir það ekki endilega að korthafar séu með öllu réttlausir. Korthafi kann enn að eiga rétt skv. þeim lögum og reglum sem gilda um þjónustuna. Korthöfum er bent á að skoða þær réttarreglur sem gilda í hvert skipti og að þeir geti leitað til Neytendastofu og/eða Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa, eða eftir atvikum til lögmanns til að tryggja rétt sinn.