Sérhæfðar innlendar fjárfestingar Lífeyrisauka

Sérhæfðar innlendar fjárfestingar Lífeyrisauka

Áhættudreifing er mikilvægur þáttur í uppbyggingu eignasafna, sérstaklega þeirra sem hafa langan fjárfestingartíma, þar sem með henni má halda fram að dregið sé úr sveiflum í ávöxtun. Með hliðsjón af þessu hefur starfsstjórn Lífeyrisauka sett sér það markmið í fjárfestingarstefnu undanfarinna ára að byggja upp dreift og fjölbreytt eignasafn bæði innanlands og erlendis.

Segja má að með breyttu fjárfestingarumhverfi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hafi Lífeyrisauki hafið vegferð sína er kemur að innlendum sérhæfðum fjárfestingum. Slíkar fjárfestingar hafa verið eyrnamerktar með þeim hætti að þær feli almennt í sér lengri binditíma, eru oft óskráðar og illseljanlegri en hefðbundnari fjárfestingar. Væntingar um ávöxtun eru að jafnaði hærri en hefðbundinna fjárfestingarkosta en að sama skapi fylgir þeim oft heldur meiri áhætta. Dæmi um sérhæfðar fjárfestingar eru framtaksfjárfestingar, fasteignafjárfestingar, sérhæfð lán og fjárfestingar í innviðum auk annarra verkefna. Í núverandi fjárfestingarstefnu og stefnu síðasta árs var horft til þess að tækifæri gætu myndast í kjölfar Covid faraldursins til fjárfestinga í vísisjóðum (e. Venture) en talsverð gróska er í hérlendu fyrirtækjaumhverfi og mikil þekking innanlands sem byggst hefur upp undanfarin ár.

Á heildina litið hefur vegferð sjóðsins í innlendum sérhæfðum fjárfestingum gengið vel, en þó eru dæmi um fjárfestingar sem hafa gengið verr en upphaflegar forsendur gerðu ráð fyrir. Sem dæmi má nefna kísilver PCC á Bakka við Húsavík en sú fjárfesting hefur gengið verr en áætlanir gerðu ráð fyrir. Eftir varúðarniðurfærslur á PCC síðustu ár er hins vegar ánægjulegt að sjá viðsnúning á rekstrinum, verksmiðjan er í starfsemi og flestar ytri aðstæður svo sem verð á kísilmálmi hagstæðar. Af þeim sökum hefur verið unnt að draga meirihlutann af varúðarniðurfærslunni til baka.

Frá árinu 2008 hefur eignaflokkurinn, innlendar sérhæfðar fjárfestingar í heild sinni, skilað um 1.190 milljón króna hagnaði af heildarfjárfestingu upp á um 3.237 milljónir króna. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá árangur einstakra fjárfestinga Lífeyrisauka sem er lokið eða langt á veg komnar.

  • SF V (Festi): Árið 2014 fjárfesti Lífeyrisauki í félagi sem var stofnað utan um fjárfestingu í fyrirtækinu Festi, sem á sínum tíma voru meðal annars verslanirnar Krónan og Elko. Árleg ávöxtun fjárfestingarinnar var um 27%.

  • Fasteignasjóður SRE II: Árið 2011 tók Lífeyrisauki þátt í fasteignasjóðnum SRE II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Stefnis þar sem meðal annars var fjárfest í Icelandair hótelinu á Akureyri, húsnæði Nýherja, Hótel Borg og Advania. Árleg ávöxtun fjárfestingarinnar á eignarhaldstíma sjóðsins var um 24%.

  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN II: Árið 2013 ákvað Lífeyrisauki að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðnum Horn II á vegum sjóðastýringarfyrirtækis Landsbréfa sem meðal annars fjárfesti í félögunum Hvatningu, stærsta eiganda Bláa Lónsins, Fáfni Offshore og Kea hótelum. Árleg ávöxtun er um 25%.

  • Íslenski Athafnasjóðurinn II: Árið 2013 fjárfesti Lífeyrisauki í framhaldssjóð Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis, Íslenska athafnasjóðsins II. Hann fjárfesti meðal annars í Festi og Skeljungi. Árleg ávöxtun er um 14%.

  • Veðskuldabréfasjóðir: Á árunum 2014-2021 hefur Lífeyrisauki fjárfest í veðskuldabréfasjóðunum Alda Credit Fund (I, II, III), Veðskuld (II, III), ST1 fagfjárfestasjóður og Landsbréf Veðskuldabréfasjóð (I, II) en um er að ræða fjárfestingu í innlendum veðskuldabréfum þar sem undirliggjandi eru meðal annars skuldabréf með veð í fasteignum. Árleg ávöxtun veðskuldabréfasjóðanna er um 7%.

  • TFII: Árið 2017 fjárfesti Lífeyrisauki í TFII, á vegum Íslenskra verðbréfa, sem hefur fjárfest í Hreinsitækni, Coripharma og Genis. Árleg ávöxtun er hingað til um 20%.

  • Íslenski Athafnasjóðurinn: Árið 2011 ákvað Lífeyrisauki að taka þátt í Íslenska athafnasjóðnum á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Högum og Sjóvá. Árleg ávöxtun er um 17%.

  • Edda slhf: Árið 2013 fjárfesti Lífeyrisauki í innlenda framtakssjóðnum Eddu hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Virðingu. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Dominos, Securitas, Marorku og Íslandshótelum. Árleg ávöxtun er um 9%.

  • Íslenski Athafnasjóðurinn III: Árið 2016 fjárfesti Lífeyrisauki í framhaldssjóði Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Reykjavík EDITION, Terra, Hamri, Lyfju og Men&Mice. Árleg ávöxtun er um 8%.

  • Kjölfesta: Árið 2012 fjárfesti Lífeyrisauki í framtakssjóðnum Kjölfestu sem var samstarf Virðingar og ALM ráðgjafar. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Meniga, Oddi, Senu, Íslands hótel. Árleg ávöxtun er um 1%.

  • Innviðir fjárfestingar: Árið 2015 fjárfesti Lífeyrisauki í innviðasjóði sem m.a. fer með eignarhlut í HS Veitum. Árleg ávöxtun er um -5%.

  • Hvatning (Bláa lónið): Árið 2019 fjárfesti Lífeyrisauki í sjóði á vegum Landsbréfa sem fer með eignarhlut í Bláa lóninu. Árleg ávöxtun er hingað til um 12%.

  • Framtaksfjárfestingarsjóðurinn HORN III: Árið 2016 fjárfesti Lífeyrisauki í framtaksfjárfestingarsjóðnum Horn III á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa sem meðal annars fjárfestir í Ölgerðinni, Hópbílum og Bílaleigu Flugleiða. Árleg ávöxtun er um 1%.

  • PCC Bakki: Árið 2015 fjárfesti Lífeyrisauki í kísilverksmiðju PCC við Húsavík. Líftíma verkefnisins er ekki lokið en ánægjulegt er að eftir varúðarniðurfærslur síðustu ára vegna rekstrarerfiðleika var í ár stór hluti af varúðarniðurfærslunni dreginn til baka. Fjárfestingin er eftir þær breytingar bókuð á um 70% af upphaflegu kaupvirði.

Undanfarin ár hefur nýjum fjárfestingum verið bætt í safnið sem þó eru stutt á veg komnar á þeim tímapunkti sem þessi frétt er skrifuð. Dæmi um fjárfestingar sem hefur nýlega verið bætt við eru: Iðunn framtakssjóður slhf., Crowberry II slhf., Eyrir Vöxtur slhf., VEX I slhf., Innviðir II slhf. og CP Invest slhf. (Coripharma). Vert er að koma inn á að með slíkar fjárfestingar þykir eðlilegt að ábati sé lítill fyrst um sinn og jafnvel neikvæður. Aftur á móti eru væntingar um að fjárfestingarnar skili hagnaði þegar tekur að líða á fjárfestingartímabilið.

 

Greinasafn

14. febrúar 2024

Fræðslufundur

Fræðslufundi um Lífeyrisauka, viðbótarlífeyrissparnað Arion, verður streymt á Facebook síðu Arion...

LESA NÁNAR

31. mars 2023

Rafræn yfirlit

Nýlega samþykkti Alþingi breytingar á lífeyrissjóðalögunum sem varða m.a. upplýsingagjöf til...

LESA NÁNAR