6. Hver eru skilyrði stjórnvalda fyrir veitingu ábyrgðarinnar?
Miðað við það sem fram kemur í samkomulagi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabanka Íslands þarf fyrirtæki að uppfylla fjölmörg skilyrði þannig að banki geti veitt því viðbótarlán með ábyrgð ríkissjóðs að hluta. Helstu skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla eru eftirfarandi:
a) Ábyrgðir taka eingöngu til lána til fyrirtækja í lausafjárþörf sem verða fyrir verulegu og ófyrirséðu tekjutapi árið 2020.
b) Tekjutap fyrirtækis er ófyrirséð og nemur að lágmarki 40% og unnt er með rökstuddum hætti að rekja það beint eða óbeint til COVID-19.
c) Viðbótarlánveiting takmarkast við fyrirtæki þar sem launakostnaður var a.m.k. 25% af heildarútgjöldum undangengins árs. Liggi endanlegur og samþykktur ársreikningur vegna ársins 2019 ekki fyrir er banka heimilt að styðjast við ársreikning 2018 eða önnur þau gögn sem tiltæk eru, og sem eru fullnægjandi til slíks mats.
d) Viðbótarlánveiting skal teljast mikilvæg forsenda þess að fyrirtækið geti viðhaldið rekstrarhæfi sínu þrátt fyrir tímabundið tekjutap.
e) Ábyrgð vegna viðbótarláns verður ekki veitt ef fyrirtækið sem um ræðir var í fjárhagserfiðleikum 31. desember 2019. Fyrirtæki telst hafa verið í fjárhagserfiðleikum á þeim tímapunkti ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum er uppfyllt:
i. Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi.
ii. Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi.
iii. Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða uppfyllir skilyrði um að vera tekið til gjaldþrotameðferðar að beiðni kröfuhafa.
iv. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
v. Eftirtalin skilyrði hafa átt við síðustu tvö reikningsár:
1. hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5 og
2. hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.
Skilyrði (i) og (ii) eiga ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt samkvæmt lögum um ársreikninga nr. 3/2006 hafi starfsemi þess staðið yfir í þrjú ár eða skemur. Skilyrði (v) á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt samkvæmt lögum um ársreikninga nr. 3/2006.