Controlant lýkur tveggja milljarða hlutafjárútboði

Controlant lýkur tveggja milljarða hlutafjárútboði

Höfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19 - myndHöfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19

Veruleg umframeftirspurn var eftir nýju hlutafé í Controlant, upplýsingatæknifyrirtæki sem þróað hefur hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Alls söfnuðust rúmlega tveir milljarðar króna. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hafði umsjón með útboðinu.

Innlendir stofnanafjárfestar, úr hópi tryggingafélaga og lífeyrissjóða, tóku þátt, þar á meðal Sjóvá og Vátryggingafélag Íslands, auk núverandi hluthafa og annarra innlendra og erlendra fjárfesta. Controlant hefur þar með safnað hátt í þremur og hálfum milljarði króna á þessu ári í formi hlutafjár og breytanlegra skuldabréfa.

Controlant verður í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19, sem viðskiptavinir Controlant stefna að því að dreifa fyrir lok árs og á fyrri hluta næsta árs, en félagið hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu. Félagið gerir ráð fyrir tæplega fimm milljarða króna veltu á næsta ári og hefur veltan tífaldast frá árinu 2019. Starfsmenn Controlant eru nú um eitt hundrað talsins og félagið hefur á undanförnum misserum náð samningum við sex af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.

„Vöxtur Controlant hefur farið langt fram úr áætlunum á þessu ári og var því ákveðið að ráðast í hlutafjáraukningu nú í haust, fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Við stefndum á að safna einum milljarði króna en eftirspurn var ríflega tvöföld. Þá er afskaplega ánægjulegt að segja frá því að lausn Controlant verður notuð til að halda utan um dreifingu á COVID-19 bóluefni um allan heim,“ segir Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant.

„Það hefur verið frábært að fylgjast með því hvernig Controlant hefur á undanförnum árum orðið leiðandi á sínu sviði á heimsvísu. Við hjá Arion banka erum afar stolt af því að fylgja félaginu í þeirri vegferð,“ segir Benedikt Gíslason, forstjóri Arion banka.