Eskja hf. eykur fjölbreytni í fjármögnun

Eskja hf. eykur fjölbreytni í fjármögnun

Eskja hf. eykur fjölbreytni í fjármögnun - mynd

Eskja hf. hefur lokið útboði á tveimur víxlaflokkum til þriggja mánaða í erlendri mynt. Umtalsverð eftirspurn var í útboðinu og bárust tilboð að fjárhæð 4.265.000 USD í flokkinn ESKJAUSD0121 og 4.000.000 EUR í flokkinn ESKJAEUR0121, samtals að jafnvirði 1.240 m.kr. Eskja ákvað að taka tilboðum að jafnvirði 759 m.kr. Með útgáfunni er félagið að auka fjölbreytni fjármögnunar sinnar, en það er nú að stærstum hluta fjármagnað með sambankaláni frá Arion banka hf. og erlendri fjármálastofnun. Félagið er fyrsta rekstrarfélagið í langan tíma sem gefur út í erlendri mynt og var Arion banki umsjónaraðili útboðsins.

Eskja er framsækið sjávarútvegsfyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðum á uppsjávarfisk auk þess að framleiða hágæðavörur úr fiski. Höfuðstöðvar félagsins eru á Eskifirði í nánd við einstaka innviði fyrir uppsjávarveiði. Félagið leggur mikla áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð en til að mynda er öll landsvinnsla félagsins knúin með rafmagni sem unnið er úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum.

Félagið býr að traustum rekstri og voru tekjur félagsins 66,7m USD og EBITDA 25,0m USD á árinu 2019. Jafnframt er efnahagsreikningur félagsins sterkur en eignir námu 197,6m USD og eigið fé 84,2m USD eða sem samsvarar 43% eiginfjárhlutfalli í lok árs 2019.

Lýður Þór Þorgeirsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar:

„Viðtökur markaðarins voru gríðargóðar og er ljóst að það er heilmikil eftirspurn eftir skuldabréfum traustra útgefenda á hagstæðum kjörum. Við höfum unnið eftir þeirri hugmyndafræði að stöndug íslensk fyrirtæki eigi að njóta hagstæðustu fjármögnunar sem er í boði hverju sinni eftir blönduðum leiðum og sjáum það nú rætast. Við teljum að markaðurinn fyrir bréf af þessum toga sé stór og hvetjum viðskiptavini bankans til að íhuga sambærilegar fjármögnunarleiðir með okkur.“