Arion banki ráðgjafi í umsvifamiklum skuldabréfaviðskiptum sem verðmeta Alvotech á 300 milljarða króna

Arion banki ráðgjafi í umsvifamiklum skuldabréfaviðskiptum sem verðmeta Alvotech á 300 milljarða króna

Arion banki ráðgjafi í umsvifamiklum skuldabréfaviðskiptum sem verðmeta Alvotech á 300 milljarða króna - mynd

Eigendur breytanlegra skuldabréfa Alvotech hafa ákveðið að nýta rétt sinn til að breyta skuldabréfum að fjárhæð 106 milljóna Bandaríkjadala, jafnvirði um 13 milljarðar króna, í hlutafé á gengi sem verðmetur Alvotech á um 300 milljarða íslenskra króna.

Alvotech gaf út breytanleg skuldabréf fyrir 300 milljónir dala, jafnvirði 36 milljarða króna á þáverandi gengi, í lok árs 2018. Eigendur skuldabréfanna höfðu rétt til að breyta skuldabréfum í hlutafé og nú hafa eigendur eins fjórða af virði bréfanna ákveðið að nýta sér rétt sinn.

Alþjóðlegi fjárfestingarbankinn Morgan Stanley og fyrirtækjaráðgjöf Arion banka voru umsjónaraðilar viðskiptanna og höfðu milligöngu um aðkomu erlendra fagfjárfesta.
Samhliða þessu hefur Alvotech samið um hagstæðari kjör á eftirstöðvum skuldabréfanna, þar sem vextir koma til með að lækka, gjalddagi er lengdur til loka ársins 2025 og frekari breytiréttur felldur niður. Þá hefur Alvotech stækkað skuldabréfaflokkinn um ríflega 6 milljarða króna, en erlendir fagfjárfestar hafa skrifað sig fyrir þeirri fjárhæð. Skuldir Alvotech lækka því við þetta sem nemur um 7 milljörðum króna, með skuldbreytingu upp á 13 milljarða króna að frádreginni 6 milljarða stækkun á skuldabréfaflokknum.

Þetta er gríðarlega stór áfangi fyrir Alvotech og staðfesting á því öfluga starfi sem starfsmenn Alvotech hafa sinnt að undanförnu. Við teljum þetta staðfesta tiltrú fjárfesta á félaginu,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech. Breytingin styður við þau markmið Alvotech að auka aðgengi fólks um allan heim að hágæða lyfjum á hagstæðara verði.

Alvotech vinnur að þróun sjö líftæknihliðstæðulyfja, þar á meðal hliðstæðu lyfsins Humira®, sem er söluhæsta lyf heims. Líftæknilyf, eru framleidd með hjálp lífvera og eru margfalt flóknari og dýrari í þróun og framleiðslu en hefðbundin lyf. Á komandi árum munu einkaleyfi margra líftæknilyfja renna út, sem veitir fyrirtæki á borð við Alvotech tækifæri til að setja líftæknihliðstæðulyf á markað.

Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma Partners. Alvogen er einnig stór hluthafi í Alvotech, en meðal eigenda eru tveir af stærstu fjárfestingasjóðum í heimi, CVC Capital Management og Temasek í Singapore. Aðrir hluthafar eru meðal annars alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma, ásamt Strungmann fjölskyldunni sem er stærsti einstaki fjárfestirinn í Biontech.
Heildarfjöldi starfsmanna Alvotech var 475 um síðustu áramót og áætlanir gera ráð fyrir að fjöldi starfsmanna í árslok 2021 verði 590, megnið af þeim eru staðsettir á Íslandi.