Fjórföld eftirspurn í hlutafjárútboði Solid Clouds

Fjórföld eftirspurn í hlutafjárútboði Solid Clouds

Fjórföld eftirspurn í hlutafjárútboði Solid Clouds - mynd

Mikil eftirspurn var í hlutafjárútboði tölvuleikjafélagsins Solid Clouds sem lauk klukkan 16 í dag, miðvikudaginn 30. júní. Samtals bárust nær 2.700 áskriftir fyrir um 2,8 milljarða króna. Er það um fjórföld umframeftirspurn en Solid Clouds leitaðist eftir því að gefa út nýja hluti fyrir um 725 milljónir króna.

Útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur. Annars vegar áskriftarbók A fyrir áskriftir undir 15 milljónum króna og hins vegar áskriftarbók B fyrir áskriftir yfir 15 milljónir króna. Verð á hlut var 12,5 kr.

  • Í áskriftarbók A bárust áskriftir fyrir samtals 1,8 milljarð króna
  • Í áskriftarbók B bárust áskriftir fyrir samtals 900 milljónir króna

Arion banki var umsjónar- og söluaðili úboðsins.

Stjórn Solid Clouds mun nú yfirfara þær áskriftir sem bárust og taka afstöðu til þeirra. Ráðgert er að niðurstaða varðandi úthlutun liggi fyrir eigi síðar en í lok dags 1. júlí 2021. Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er áætlað að verði miðvikudaginn 6. júlí 2021. Áætluð afhending hluta og taka til viðskipta á Nasdaq First North markaðnum er 12. júlí 2021.Tilkynnt verður um fyrsta viðskiptadag með hlutabréfin með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.

Óhætt er að fullyrða að útboðið brjóti blað í fjármögnun vaxtarfyrirtækja hér á landi og mun koma til með að auka fjölbreytni fjárfestingakosta. Þá eru vonir bundnar við að skráning Solid Clouds auki áhuga og þátttöku ungs fólks á fjármálamarkaði, stuðla að opnum og virkum markaði með vaxtarfyrirtæki og styrkja fjármögnunarumhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja.

Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds:
Ég er mjög þakklátur fyrir það hversu margir einstaklingar sýndu félaginu áhuga. Það er mikil hvatning fyrir Solid-teymið fram á veginn. Fram undan hjá félaginu er útgáfa nýs leiks á næsta ári og við hlökkum til að deila þeim árangri með hluthöfum félagsins,“ segir Stefán.