Valfrjálst tilboð
til hluthafa Origo hf.

 
AU 22 ehf. gerir öðrum hluthöfum Origo hf. tilboð um kaup á hlutum þeirra í félaginu á genginu kr. 101 fyrir hvern hlut.

Þann 12. desember 2022 tilkynnti AU 22 ehf. („tilboðsgjafi“) að það hefði ákveðið að gera öðrum hluthöfum Origo hf. („Origo“) valfrjálst tilboð í hluti þeirra í félaginu í samræmi við ákvæði laga nr. 108/2007 um yfirtökur („lög um yfirtökur“).

Tilboðsgjafi er eignarhaldsfélag í fullri eigu Umbreytingar II slhf., framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks ehf. („Alfa Framtak“). Alfa Framtak er óháður rekstraraðili sérhæfðra sjóða sem leggur áherslu á framtaksfjárfestingar og starfar samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða nr. 45/2020. Alfa Framtak fjárfestir í fyrirtækjum, oftast sem meirihlutaeigandi og beitir sér markvisst fyrir virðisaukningu. Stefna Alfa Framtaks er að skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi en þegar þau voru keypt og þannig skilja eftir jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.

Tilboðsgjafi á samtals 29,3% af útgefnu hlutafé Origo og fer með 29,9% af virkum atkvæðum félagsins, þ.e. þegar tekið hefur verið tillit til eigin hluta Origo.

Tilboðsyfirlit og umfang tilboðs

AU 22 hefur birt valfrjálst tilboð með þeim skilmálum og skilyrðum sem kveðið er á um í X. og XI. kafla laga um yfirtökur og var birt opinberlega þann 19. janúar 2023 („tilboðsyfirlitið“).

Tilboðið nær til allra hluta í Origo sem ekki eru í eigu tilboðsgjafa og Origo sjálfs samkvæmt hlutaskrá við lok viðskiptadags þann 18. janúar 2023. Þeim hluthöfum verður sent tilboðsyfirlitið ásamt samþykkiseyðublaði og svarsendingarumslagi.

Framangreind skjöl eru aðgengileg hjá umsjónaraðila valfrjálsa tilboðsins, á vef Origo (www.origo.is) og í fréttakerfi Nasdaq Nordic (nasdaqomxnordic.com).

Tilboðsverð og greiðsla

Tilboðsverð er ákvarðað í samræmi við 2. mgr. 103. gr. laga um yfirtökur og hljóðar upp á kr. 101, fyrir hvern hlut í Origo sem er afhentur veðbanda- og kvaðalaus. Greiðsla fyrir yfirtekna hluti verður innt af hendi í íslenskum krónum inn á þann bankareikning sem tengdur er vörslureikningi bréfanna eigi síðar en fimm viðskiptadögum eftir að gildistíma valfrjálsa tilboðsins lýkur.

Tilboðstímabil og samþykki valfrjálsa tilboðsins

Gildistími valfrjálsa tilboðsins er fimm vikur, frá kl. 09:00 þann 19. janúar 2023 til kl. 13:00 þann 22. febrúar 2023. Hluthafi sem vill samþykkja valfrjálsa tilboðið skal annað hvort skila frumriti af rétt útfylltu samþykkiseyðublaði sem sent er til hluthafa, á skrifstofu Arion banka hf., Borgartúni 19, 105 Reykjavík („umsjónaraðila“), merkt „Valfrjálst tilboð í Origo“ eða samþykkja tilboðið rafrænt á vef valfrjálsa tilboðsins á vefslóðinni www.arionbanki.is/tilbod-origo með því að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Hluthafi er ábyrgur fyrir því að skrá samþykki tilboðsins rafrænt eða koma frumriti samþykkiseyðublaðsins til Arion banka. Samþykki valfrjálsa tilboðsins verður að hafa borist umsjónaraðila eigi síðar en kl. 13:00 þann 22. febrúar 2023.

Umsjónaraðili

Tilboðsgjafi hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. sem umsjónaraðila valfrjálsa tilboðsins fyrir sína hönd. Nánari upplýsingar eru veittar hjá Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. í gegnum tölvupóstfangið origo@arionbanki.is og í síma 444-7000.

Fyrirvari

Vefsíða þessi er útbúin og veitt í upplýsingaskyni og felur ekki í sér ráðgjöf af hálfu tilboðsgjafa eða umsjónaraðila. Tilboðshöfum er bent á að afla sér viðeigandi ráðgjafar sérfræðinga.

 
Tilboðstímabilinu er lokið


Nánari upplýsingar

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka
origo@arionbanki.is