Yfirtökutilboð til hluthafa Skeljungs hf.

RES 9 ehf., 365 hf. (eða dótturfélag í þess eigu) og RPF ehf. gera öðrum hlutöfum Skeljungs hf. tilboð um kaup á hlutum þeirra í félaginu á genginu 8,315 kr. á hlut.

Þann 8. nóvember sl. tilkynntu RES 9 ehf., 365 hf. og RPF ehf. („samstarfsaðilarnir“) um samstarf milli félaganna er varðar hlutabréf útgefin af Skeljungi hf. („Skeljungur“), eins og hugtakið er skilgreint í 2. mgr. 100. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Samstarfið felur í sér að eignarhlutir samstarfsaðilanna í Skeljungi verða færðir í sérstakt félag, Streng ehf., en félagið eða dótturfélag þess mun fara með eignar- og atkvæðisrétt fyrir samtals 716.116.288 nafnverðshluti í Skeljungi, sem svarar til 36,06% af heildarhlutafé Skeljungs, eða 36,88% af útistandandi hlutum (að teknu tilliti til eigin hluta). Þar sem samstarfsaðilarnir hafa sameiginlega eignast meira en 30% atkvæðisrétt í Skeljungi hafa þeir náð yfirráðum í Skeljungi í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga nr. 108/2007 og ber skylda til að gera öðrum hluthöfum Skeljungs tilboð um kaup á hlutum þeirra í félaginu.

Tilboðsyfirlit og umfang tilboðs

Samstarfsaðilarnir munu leggja fram tilboðsyfirlit með þeim skilmálum og skilyrðum sem kveðið er á um í X. og XI. kafla laga nr. 108/2007 sem birt verður opinberlega í síðasta lagi 6. desember nk. („tilboðsyfirlitið“).

Tilboðið tekur til allra hluta í Skeljungi sem ekki eru í eigu samstarfsaðilanna eða Skeljungs sjálfs við lok viðskipta daginn fyrir birtingu tilboðsyfirlits. Þeim hluthöfum sem skráðir eru í hluthafaskrá Skeljungs við lok þess dags verður sent tilboðsyfirlitið ásamt samþykkiseyðublaði og svarsendingarumslagi.

Framangreind skjöl verða aðgengileg hjá umsjónaraðilum yfirtökutilboðsins, á vef Skeljungs (www.skeljungur.is) og í fréttakerfi Nasdaq OMX Nordic (nasdaqomxnordic.com).

Yfirtökuverð og greiðsla

Yfirtökuverð er ákvarðað í samræmi við 2. mgr. 103. gr. laga nr. 108/2007 og hljóðar upp á 8,315 kr., fyrir hvern hlut í Skeljungi sem er afhentur veðbanda- og kvaðalaus. Yfirtökuverð er 6,6% hærra en dagslokagengi hlutabréfa Skeljungs 6. nóvember sl., sem var síðasti viðskiptadagur áður en tilkynnt var um samstarf og fyrirhugað yfirtökutilboð. Greiðsla fyrir yfirtekna hluti verður innt af hendi í íslenskum krónum inn á bankareikning sem hluthafi tilgreinir eigi síðar en fimm viðskiptadögum eftir að gildistími yfirtökutilboðsins lýkur.

Umsjónaraðilar

Samstarfsaðilarnir hafa ráðið fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. sem umsjónaraðila yfirtökutilboðsins fyrir þeirra hönd. Frekari upplýsingar eru veittar í gegnum netfangið skeljungur@arionbanki.is og skeljungur@islandsbanki.is.

Fyrirvari

Vefsíða þessi er útbúin og veitt í upplýsingaskyni og felur ekki í sér ráðgjöf af hálfu RES 9 ehf., 365 hf., RPF ehf. eða umsjónaraðila. Tilboðshöfum er bent á að afla sér viðeigandi ráðgjafar sérfræðinga.