Er neyslan enn að vaxa? Var apríl bara gabb?

Er neyslan enn að vaxa? Var apríl bara gabb?

Vangaveltur um stefnu hagkerfisins þessa dagana snúa ekki síst að því hvort neysla landsmanna haldi áfram að dragast saman, eins og hún gerði á árunum 2008 og 2009. Árið 2010 byrjaði vel að þessu leyti því neysla landsmanna tók að vaxa – ef sá vöxtur heldur áfram mun neyslusamdrátturinn reynast talsvert minni en óttast var í upphafi hrunsins. Ef svo fer verður hagvöxturinn meiri en ella enda er neysla stærsta sneiðin í hagvaxtarkökunni. Þessi niðurstaða hefði fjölmarga kosti í för með sér; t.d. yrði atvinnuleysi minna en annars og þörfin fyrir niðurskurð og skattahækkanir minni.

Í apríl fór hinsvegar að glitta í óveðursský á lofti (á sama tíma og Eyjafjallajökull myndaði sitt öskuský) þar sem besti mælikvarðinn á neyslu þjóðarinnar – velta á debet- og kreditkortum - tók dýfu. Var það vísbending um að samdrátturinn muni halda áfram og að vöxturinn í upphafi árs hafi aðeins verið tilfallandi? Það eru óneitanlega ýmsir kraftar að verki sem geta dregið niður neysluna; atvinnuleysi er í hæstu hæðum, kaupmáttur heimila enn í lágmarki á sama tíma og mesti kúfurinn við útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar er genginn yfir. Boðaðar skattahækkanir á næsta ári hafa líklega einnig dregið væntingar landsmanna enn frekar niður.

Sjá umfjöllun í heild: