Spáum 100 punkta vaxtalækkun

Spáum 100 punkta vaxtalækkun

Peningastefnunefnd var samhljóða um 100 punkta vaxtalækkun á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í ágúst sl. Að okkar mati verður jafn stórt skref tekið á næsta fundi nefndarinnar á miðvikudaginn, enda eru verðbólguhorfur hagfelldar, krónan hefur haldið áfram að styrkjast og skuldatryggingarálag á íslenska ríkið hefur lækkað. Þessu til viðbótar reyndust landsframleiðslutölur á 2. ársfjórðungi lakari en vænst var til. Einnig er útlit fyrir að bankakerfið standi traustari fótum eftir úrskurð Hæstarréttar um gengistryggð lán heimilanna. Óvissa um áhrif gengislána á bankakerfið hefur undanfarið verið meðal þeirra atriða sem hafa sett nefndinni skorður. Greiningardeild telur að Seðlabankinn haldi sig því við 100 punkta vaxtalækkun á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 22.september nk. Gangi spá okkar eftir fara innlánsvextir (depo) niður í 4,5% og veðlánavextir (repo) 6%.

200 punktar áður en árið er úti?
Við teljum að þróun stýrivaxta það sem eftir lifir árs muni að töluverðu leyti velta á því hvaða afstöðu bankinn mun taka til afnáms hafta. Ekki er hægt að útiloka að Seðlabankinn haldi sínum kúrsi út árið og lækki vexti áfram um 100 punkta á hverjum fundi eða samtals 300 punkta. Á hinn bóginn er hugsanlegt að meginstefið í yfirlýsingum Seðlabankans verði að afnám hafta sé á næsta leiti, og vextir lækki því aðeins um 150 punkta til ársloka. Við teljum líklegustu niðurstöðuna hinsvegar liggja einhverstaðar þarna á milli og að vextir verði lækkaðir um 200-250 punkta til ársloka.

Sjá umfjöllun í heild: