Lítil verðbólga í ágúst - er Seðlabankinn að ofmeta verðbólguna?

Lítil verðbólga í ágúst - er Seðlabankinn að ofmeta verðbólguna?

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,26% í ágúst og stendur tólf mánaða verðbólga í stað milli mánaða í fimm prósentum. Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi á dögunum gert mikið úr versnandi verðbólguhorfum þá vekur athygli að í ágúst mælist verðhjöðnum ef horft er framhjá áhrifum útsöluloka (+0,34%).

Verðbólgan í ágúst er lægri en spá okkar gerði ráð fyrir, en greiningardeild spáði 0,4% hækkun milli mánaða – helstu frávikin má rekja til lækkunar á flugfargjöldum ásamt því sem húsnæðisliður vísitölunnar stendur í stað, en í báðum tilvikum höfðum við gert ráð fyrir hækkun. Almennar spár lágu á bilinu 0,4-0,6%.

Brennt barn forðast eldinn
Seðlabankinn birti í síðustu viku uppfærða verðbólguspá í Peningamálum fyrir árin 2011-2013. Það sem vekur athygli nú er hversu svartsýnn Seðlabankinn er á verðbólguhorfur næstu misserin. Spáir bankinn því að ársverðbólga mælist nálægt 7% á fyrsta fjórðungi næsta árs í stað 3% líkt og fyrri spá þeirra gerði ráð fyrir. Seðlabankinn hefur reyndar hingað til brennt sig á því að vanspá verðbólgu á árinu (og síðustu ár) og hefur því ítrekað þurft að hækka spá sína við útgáfu nýrra Peningamála. Hins vegar má nú velta því fyrir sér hvort bankinn hafi ekki rækilega skotið sig í hinn fótinn og vanmetið kraft framleiðsluslakans í hagkerfinu – sem er enn rúmlega 3% af framleiðslugetu hagkerfisins skv. nýjustu spá þeirra.

Hugsanlegt ofmat Seðlabankans á verðbólguhorfum kristallast einna helst í spá bankans fyrir 3F 2011. Eigi spáin að ganga eftir um 5,6% ársverðbólgu þarf verðbólgan í næsta mánuði að vera heil 1,6% (til samanburðar gerir greiningardeild ráð fyrir 0,4% verðbólgu í september)!

Sjá umfjöllun í heild sinni: