Þokkalegur gangur: 2,5% hagvöxtur á fyrri árshelmingi ársins

Þokkalegur gangur: 2,5% hagvöxtur á fyrri árshelmingi ársins

Landsframleiðslan jókst að raungildi um 2,5% á fyrri árshelmingi ársins frá sama tíma í fyrra skv. tölum Hagstofunnar. Þjóðarútgjöld (innlend eftirspurn) jukust um 5% og því ljóst að helsti dragbítur hagvaxtar á fyrstu 6 mánuðum ársins kemur frá utanríkisviðskiptum. Þrátt fyrir að hagkerfið sé að rísa á ný þá er enn langur vegur frá því að framleiðslan nái sömu hæðum og fyrir hrun. Í raun er hagkerfið á svipuðum stað og á árunum 2005-2006 - sem er e.t.v. ekkert svo slæmt.

Athygli vekur að Hagstofan endurskoðar landsframleiðslutölur fyrir árið 2010 og er nú gert ráð fyrir að samdrátturinn hafi numið 4% í stað 3,5% eins og fyrri áætlun gerði ráð fyrir. Endurskoðun talna leiðir því í ljós að efnahagsslakinn í hagkerfinu er lítillega meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Túlkun hagvaxtartalna: Að mati greiningardeildar eru hinar nýbirtu tölur ekki úr takti við það sem búast mátti við. Mikil birgðaaukning á loðnu á fyrsta ársfjórðungi gaf e.t.v. mörgum tilefni til að fyllast of mikillar bjartsýni þar sem hagvöxturinn var ríflega 3,5% (YoY) en mælist eingöngu 1,4% á 2F 2011.

Að því gefnu að fjárfestingatölur Hagstofunnar reynist réttar þá er fjárfesting hins vegar ekki að ná sér á strik og útlit fyrir að Seðlabankinn og Hagstofan (sem forsendur fjárlaga byggja á – eins ruglingslegt og það hljómar) séu einum of bjartsýn í sínum spám. Hins vegar verður að hafa þann fyrirvara á bráðabirgðatölum Hagstofunnar að eins konar „mæliskekkja“ virðist vera í gögnunum þegar fjárfesting er borin saman við innflutning á fjárfestingavörum (sjá umfjöllun hér fyrir neðan). Ekki er því hægt að útiloka að fjárfesting sé meiri en birtar tölur gefa í skyn og verði því endurskoðaðar þegar Hagstofan hefur fengið nákvæmari gögn í hendurnar. Eins má ekki gleyma að talsverðar sveiflur eru í fjárfestingu og eins prósentustigs vöxtur getur hæglega breyst í 10 prósenta vöxt á seinnihluta ársins. Án tillits til þess hvort fjárfestingatölur séu réttar eða ekki þá má hagvöxtur á seinni árshelmingi ársins ekki mælast minni eigi spár Seðlabankans og Hagstofunnar ganga eftir.

Sjá umfjöllun í heild sinni: