Verðbólguspá fyrir september 2011

Verðbólguspá fyrir september 2011

Greiningardeild gerir ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í september og mun 12 mánaða taktur VNV því hækka í 5,5% samanborið við 5% í ágúst. Að mati greiningardeildar er lítill verðbólguþrýstingur í pípunum næstu mánuði að því gefnu að húsnæðisliður VNV og gengi krónunnar haldist stöðugt. Enn fremur er það mat greiningardeildar að kaupmenn og aðrir söluaðilar muni hafa heldur hægt um sig þetta haustið, þrátt fyrir að kostnaður hafi hækkað í kjölfar kjarasamninganna í sumar sem e.t.v. gefur ríkari ástæðu en ella til að hækka vöruverð (sjá bráðabirgðaspá). Um 2% styrking krónunnar síðustu mánuði skiptir þar miklu máli.

 

Helstu atriði í septemberspánni:

Útsölulok. Sumarútsölur höfðu 0,6% áhrif til lækkunar í júlí. Í ágúst gengu útsöluáhrifin að hluta til baka (+0,34%) og gerum við ráð fyrir að afgangurinn skili sér út í verðlagið í september. Þrátt fyrir að vænta mætti aukaálagningu í kjölfarið teljum við meiri líkur á því að kaupmenn haldi að sér höndum og að verðlag standi að mestu leyti í stað (ef horft er framhjá útsöluáhrifum). Áhrif í september: +0,3%.

Húsnæðisliður stendur í stað. Markaðsverð húsnæðis hafði áhrif til lækkunar VNV í ágúst, þetta gerist þrátt fyrir að talsverð hækkun mældist á fasteignaverðsvísitölunni í maí (2,7% hækkun) skv. Fasteignaskrá Íslands (í VNV er tekið mið af þriggja mánaða hlaupandi meðaltali á mánaðarbreytingu íbúðaverðs á landinu öllu). Við gerum því nú ráð fyrir óverulegum áhrifum af þessum hluta á VNV í september þrátt fyrir að afar erfitt sé að spá fyrir um áhrifin. Eins gerum við ráð fyrir að kostnaðarliðurinn, viðhald og viðgerðir (endurspeglar að stóru leyti byggingarvísitöluna með eins mánaðar töf), standi í stað. Áhrif í september: Engin.

Eldsneytisverð hefur óveruleg áhrif. Verð á bensíni hækkaði lítillega í september sem rekja má til þess að heimsmarkaðsverð hefur hækkað lítillega milli mælinga, styrking krónunnar hefur hins vegar vegið upp á móti. Áhrif í september: +0,01%.

Flugfargjöld. Oft á tíðum hefur liðurinn skoppað upp og niður með heldur fyrirsjáanlegum hætti. Þetta samband hefur hins vegar rofnað að undanförnu en á síðustu 3 mánuðum hafa flugfargjöld dregið niður VNV um 0,22%. Alla jafna lækka flug og flugfargjöld í september VNV nokkuð kröftuglega, hins vegar má telja að lækkunin verði hófleg að þessu sinni í ljósi undangenginna lækkana síðustu mánuðina. Áhrif í september: -0,05%

• Árstíðabundnar hækkanir. Íþróttir, námskeið og ýmsar aðrar hækkanir eru oft í september. Áhrif í september:+0,05%

Umfjöllun í heild sinni: