Er pattstaða á fasteignamarkaði?

Er pattstaða á fasteignamarkaði?

Íbúðaverð mun hækka á næstu árum þrátt fyrir áframhaldandi slaka í hagkerfinu. Hægt hefur á brottflutningi frá Íslandi og mun eftirspurn eftir íbúðum aukast. Framboð næstu ára mun ekki halda í við eftirspurn þar sem nýbygging verður nær engin. Nýframkvæmdir munu aðeins hefjast þegar markaðsverð hefur hækkað í átt að byggingarkostnaði. Má því búast við skorti á íbúðum þegar líða tekur á árið 2013.

Lítið svigrúm til mikilla hækkana (bls. 2-3)
Óhætt er að segja að skrýtin staða sé komin upp á fasteignamarkaði. Mikill fjöldi ókláraðra íbúða er til staðar en nýbygging er svo gott sem engin. Greiningardeild spáir verðhækkun á næstu árum en hækkunin verður ekki mikil sökum þess að kaupmáttur heimila verður áfram lítill og fjármálaleg skilyrði heimila enn erfið.

Framboð nóg í bili en stutt í skort (bls. 4-11)
Ókláraðar íbúðir sem byrjað var á fyrir hrun munu sjá íbúðakaupendum fyrir húsnæði næstu misseri. Nýbygging er lítil sem engin um þessar mundir en hún mun einungis taka við sér þegar markaðsverð fasteigna hækkar eða byggingarkostnaður lækkar. Eins og staðan er í dag er byggingarkostnaður almennt um 26% yfir markaðsverði fasteigna. Fari nýbygging ekki að aukast á næstu misserum mun skortur á íbúðum gera vart við sig þegar líða fer á árið 2013.

Eftirspurn tekur við sér þrátt fyrir slaka (bls. 12-13)
Eftirspurn eftir íbúðum á höfuðborgarsvæðinu dróst saman árið 2009 m.a. sökum mikils brottflutnings frá Íslandi sem hefur nú stöðvast. Þrátt fyrir veikan kaupmátt og skertan aðgang að fjármagni er útlit fyrir að eftirspurn aukist á ný. Þetta helgast einkum af þeim aukna fjölda einstaklinga á íbúðakaupaaldri sem þarf að finna sér þak yfir höfuðið á komandi árum. Einnig er útlit fyrir fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu vegna áframhaldandi brottflutnings frá landsbyggðinni.

Umsvifin í hagkerfinu ráða hraða aðlögunar (bls. 16-18)
Í upphafi árs hóf fasteignamarkaðurinn loks að rífa sig upp úr þeirri ládeyðu sem ríkt hafði frá hruni. Þessi þróun hefur haldist í hendur við aukin umsvif í hagkerfinu – enda oft á tíðum sömu kraftar sem liggja þar að baki. Hins vegar má lítið út af bregða því efnahagsbatinn byggir á veikum grunni og slíkt hið sama má því segja um fasteignamarkaðinn.

Sjá skýrsluna í heild sinni: