VNV og hrávörumarkaðir

VNV og hrávörumarkaðir

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,63% í september og er tólf mánaða verðbólga nú 5,7% samanborið við 5% í ágúst. Verðbólgan var hærri en spá okkar gerði ráð fyrir, en greiningardeild hafði spáð 0,4% hækkun milli mánaða. Spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir 0,4-0,6% hækkun VNV.

Svo virðist sem kaupmenn séu enn að ýta kostnaðarhækkunum út í verðlagið, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst upp á síðkastið og verð á hrávörum hafi lækkað. Þá hefur verð á innlendum kjötvörum rokið upp í verði.

Bráðabirgðaspá: Lítil verðbólga framundan
Að mati greiningardeildar bendir ýmislegt til þess að heldur sé að hægja á verðbólguhraðanum og að væntar kostnaðarhækkanir hafi að mestu leyti komið fram. Eitt helsta áhyggjuefnið, sem endranær, verður hvort krónan muni haldast á svipuðu róli nú þegar helsta ferðamannatímabilinu lýkur. Hrávöruverðshækkanir virðast hafa látið staðar numið í bili a.m.k, og þrýstingur í raun skapast í hina áttina. Þetta eitt og sér mun á endanum skila sér í lægra hrávöruverði hér heima.

 

Hrávörur lækka í verði
Verð á hrávörum hefur sveiflast mikið á síðastliðnum árum. Í aðdraganda hrunsins árið 2008 hækkaði verð á hrávörum skarpt og var talið að fjárfestar hefðu leitað í skjól hrávara. Í kjölfar þeirrar kreppu sem tók við á heimsvísu í lok árs 2008 tók hrávöruverð hressilega dýfu og lækkaði Reuters Jeffrey hrávöruverðsvísitalan t.a.m. um 54% á rúmum 6 mánuðum. Þróun síðustu vikna og mánaða minnir óneitanlega á þróunina sem átti sér stað seinni hluta ársins 2008 þrátt fyrir að verðlækkanir, enn sem komið er, hafi að undanförnu ekki verið jafn miklar og þá.

 

Sjá umfjöllun í heild sinni: