Verðbólguspá fyrir október 2011

Verðbólguspá fyrir október 2011

Greiningardeild gerir ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í október og mun 12 mánaða taktur VNV því lækka í 5,4% samanborið við 5,7% í september. Hagstofan birtir tölur um VNV í fyrramálið.

Helstu atriði í októberspánni:

Eldsneytisverð lækkar. Þrátt fyrir að eldsneytisverð hafi hækkað síðustu daga þá munu þau áhrif ekki mælast í októbermælingu Hagstofunnar þar sem verðmælingum var að mestu lokið þegar hækkanirnar áttu sér stað. Eldsneytisliðurinn í október mun því hafa lækkunaráhrif á VNV. Að öðru óbreyttu mun eldsneytisliðurinn hins vegar hækka á ný í nóvember. Áhrif á VNV í október: -0,1%

Húsnæðisliðurinn hækkar. Í október í fyrra hafði liðurinn húsnæði, hiti og rafmagn mikil áhrif á VNV (+0,43%). Ástæðuna má rekja til mikillar gjaldskrárhækkunar Orkuveitunnar á hita og rafmagni. Ekkert slíkt hefur verið boðað nú. Ef marka má tölur Fasteignaskrár Íslands um þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu í september hefur fasteignverð hækkað um 1,3% frá fyrri mánuði. Eins og oft hefur komið fram þá tekur Hagstofan mið af þriggja mánaða hlaupandi meðaltali á mánaðarbreytingu íbúðaverðs á landinu öllu. Þó má leiða að því líkum að markaðsverðsliður VNV (reiknuð leiga) fari hækkandi í takt við þróun á markaði upp á síðkastið. Áhrif húsnæðisliðar á VNV: +0,1%

Flugfargjöld hækka. Síðustu ár hefur það sýnt sig að flugfargjöld hækka almennt hressilega í október. Miðað við reynslu síðustu ára má þó reikna með því að hækkunin gangi tilbaka í nóvember. Áhrif í október:+0,15%