Verðbólgan í október og langtímaverðbólguspá

Verðbólgan í október og langtímaverðbólguspá

Verðlag hækkaði um 0,34% í október frá fyrri mánuði samkvæmt nýrri verðmælingu Hagstofunnar og mælist ársverðbólgan nú 5,3% samanborið við 5,7% í september. Spá greiningardeildar hljóðaði upp á 0,4%. Frávikið má einna helst rekja til minni hækkunar á flugfargjöldum en við gerðum ráð fyrir.

Þessi verðmæling gefur til kynna að síðasta verðbólguspá Seðlabankans frá því í ágúst hafi ofmetið verðbólguhorfur, til skamms tíma að minnsta kosti. Því eru miklar líkur á að Seðlabankinn muni lækka verðbólguspá sína í Peningamálum, sem birtist samhliða stýrivaxtaákvörðun sem er í næstu viku. Ekki má gleyma því að versnandi verðbólguhorfur til næstu tveggja ára voru ein af meginröksemdum peningastefnunefndar þegar vextir voru hækkaðir í ágúst.

Langtímaverðbólguspá út árið 2013

Greiningardeild gerir ráð fyrir að verðbólgan verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans næstu tvö árin. Spá greiningardeildar gerir ráð fyrir að verðbólgan verði í 5,4% í lok þessa árs, 3,4% í lok árs 2012 og upp á rúm 4% í lok ársins 2013.
Þessi viðvarandi verðbólga á rætur sínar að rekja til nokkurra þátta. Sá þáttur sem vegur þyngst er hækkun á markaðsverði húsnæðis. Samkvæmt spá greiningardeildar er útlit fyrir að skortur á íbúðamarkaði árið 2013 muni leiða af sér enn frekari hækkanir á húsnæðisverði en á árinu 2012. Samhliða verðhækkunum á íbúðamarkaði og auknum umsvifum í hagkerfinu árið 2013 má því búast við því að verðbólgan fari lítillega upp á ný.

Sjá nánari umfjöllun: