Ónotaða stýritækið og vaxtaákvörðun í nóvember

Ónotaða stýritækið og vaxtaákvörðun í nóvember

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hversu erfiðlega Seðlabankanum hefur gengið í gegnum tíðina að uppfylla meginmarkmið sitt um að halda verðbólgu niðri – en frá því í janúar 2001 hefur ársverðbólga mælst 2,5% eða minni í 21 skipti af 130 (16% tilvika). Ef skoðuð eru síðustu 7 ár hefur bankinn einungis verið undir verðbólgumarkmiðinu í fjóra mánuði en það var í lok síðasta árs og í byrjun ársins 2011. Afar veik miðlun vaxta, óstjórn ríkisfjármála og mikið ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap eru meðal þeirra þátta sem hafa unnið gegn markmiðum Seðlabankans. Vissulega er endalaust hægt að deila um það hvort Seðlabankinn hafi svo yfir höfuð tekið réttar ákvarðanir í þeirri tilraun sinni í að halda verðbólgunni í skefjum, en látum það liggja milli hluta í bili a.m.k.


Almennt er talað um að aðalstýritæki Seðlabankans séu aðeins tvö, þ.e. stýrivextir og bindiskylda. Seðlabankinn hefur þó fleiri stýritæki líkt og sjá má í 8. grein laga um Seðlabanka Íslands frá 2001. Seðlabankinn hefur heimild samkvæmt lögum til að kaupa og selja verðbréf bæði á frum- og eftirmarkaði til að ná fram markmiðum sínum. Seðlabankinn hefur enn ekki gripið til þess ráðs að hlutast til á markaði. Full ástæða er til þess að spyrja sig af hverju hann hafi ekki gert það og hvort ástæða sé til þess?


Óbreyttir stýrivextir í nóvember

Greiningardeild spáir óbreyttum stýrivöxtum næstkomandi miðvikudag. Við teljum að sömu rök eigi við nú og við síðustu vaxtaákvörðun þegar vöxtum var haldið óbreyttum. Þá taldi meirihluti nefndarinnar að hagstæðari verðbólgutölur en vænst hafði verið, gengisstyrking krónunnar og lakari horfur í heimsbúskapnum væru þættir sem gerðu þeim mögulegt að halda vöxtum óbreyttum. Allir þessir þættir hafa þróast með svipuðum hætti og draga úr „nauðsyn“ hærri vaxta á núverandi tímapunkti. Peningastefnunefnd hefur þó ítrekað lagt áherslu á að til lengri tíma litið sé við hæfi að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar (e. negative bias).Sjá nánari umfjöllun: