Ósjálfbær vöxtur í einkaneyslu

Ósjálfbær vöxtur í einkaneyslu

Síðustu mánuði hefur verið töluverður vöxtur í einkaneyslu milli ára. Þetta kann að skjóta skökku við þar sem lítil kaupmáttaraukning hefur átt sér stað og hagvöxtur verið lítill. Samkvæmt spá Seðlabankans mun vöxtur einkaneyslu halda áfram, þrátt fyrir að hann verði hóflegur í sögulegu samhengi. Hins vegar er full ástæða til að velta því fyrir sér hvort að aukning í einkaneyslu á núverandi tímapunkti sé eðlileg og hvort hún sé líkleg til að halda áfram þegar fram líða stundir, að því gefnu að hagvaxtarhorfur breytist ekki í millitíðinni. Þar sem einkaneyslan mun stuðla að helmingi hagvaxtar til ársins 2014 (samkvæmt spá Seðlabankans) er ljóst að bakslag í vexti einkaneyslu mun draga niður hagvöxt. Einnig hlýtur að vakna sú spurning hvort að styrking krónunnar upp á síðkastið sé ekki einmitt til þess fallin að styðja við ósjálfbæra þróun einkaneyslunnar en þjóðarbúið þarf að standa undir þungum afborgunum af erlendum lánum einkum á árunum 2014-2018 þegar afborganir af skuldabréfi Nýja Landsbankans til Gamla Landsbankans hefjast. Aukin einkaneysla mun hafa neikvæð áhrif á mögulegan viðskiptaafgang og þar með getu þjóðarbúsins til að standa undir afborgunum af erlendum lánum þegar fram líða stundir.

Sjá nánar: