Verðbólgan í nóvember og verðbólguhorfur

Verðbólgan í nóvember og verðbólguhorfur

Greiningardeild gerir ráð fyrir 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í nóvember og mun 12 mánaða verðbólga því áfram verða 5,3%. Hagstofa Íslands lauk verðbólgumælingum fyrir nóvember í lok síðustu viku og verða niðurstöðurnar kunngjörðar 25. nóvember.
Það er afar fátt sem drífur verðbólguna áfram í nóvember. Veiking krónunnar á fyrri hluta ársins hefur að mestu leyti gengið til baka og ekki er útlit fyrir neinar árstíðarbundnar hækkanir. Einnig bendir flest til þess að eldsneytisliðurinn standi í stað, flugfargjöld lækki og því einna helst möguleg hækkun á markaðsverði húsnæðis sem mun valda því að verðbólgan verður jákvæð í nóvember.

Mikil óvissa um verðbólguhorfur

Eins og oft áður er nokkur óvissa um þróun verðbólgu á næstu mánuðum en það má rekja til óvissu um þróun orsakavalda verðbólgunnar. Helst ber að nefna eftirfarandi þætti:

  • Er Evrópa á leiðinni í kreppu?
  • Ný olíukrísa vegna Íran?
  • Veikist krónan þegar túristastraumurinn minnkar?
  • Óljóst hversu mikið sveitarfélögin hækka gjaldskrár.
  • Aukin samkeppni í flugrekstri.

Bráðabirgðaspá: 0,3% verðhjöðnun næstu þrjá mánuði, skammgóður vermir

Að mati greiningardeildar mun verðlag hækka um 0,3% til viðbótar á þessu ári. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga verða 5,2% í árslok. Í janúar mun svo 12 mánaða takturinn hækka á nýjan leik og fara í 5,6%. Þessa hækkun má rekja til þess að í janúar á þessu ári var útvarpsgjaldið tekið út úr VNV og því mældist óvenju mikil verðhjöðnun í upphafi þessa árs. Eftir janúarmælinguna er það okkar mat að 12 mánaða verðbólga muni fara lækkandi.

 

Sjá nánari umfjöllun: