Forðinn: Meira út en inn?

Forðinn: Meira út en inn?

Gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur aldrei verið meiri og nemur nú tæpum 985 milljörðum króna. Hins vegar eru skuldbindingar Seðlabankans í erlendri mynt um 1063 milljarðar króna, og er staðan því neikvæð um 78 milljarða í dag. Hér á reyndar eftir að bæta við nettó skuldum ríkisins í erlendri mynt (gjaldeyrisinnstæður í Seðlabankanum mínus erlendar skuldir), en þá er nettó staðan um 60 milljörðum króna verri. Á móti því koma svo aðrar erlendar eignir Seðlabankans sem ekki eru taldar með í forða og eru hluti af eignum Eignarhaldsfélags Seðlabankans, en þær nema um 67 milljörðum króna. Heildarstaðan er því neikvæð um 71 milljarð króna.

Samsetning forðans
Eignir:
Eins og sjá má á mynd hér fyrir neðan þá er uppistaðan í forða Seðlabankans einkum erlend innlán og verðbréf. Væntanlega er stærsti hluti verðbréfanna í afar tryggum eignum eins og þýskum ríkisvíxlum og innlánin í erlendum Seðlabönkum. Því ætti krísan í Evrópu að hafa lítil áhrif á verðmæti þeirra eigna sem bera forðann uppi í dag.
Skuldirnar. Um 380 milljarðar af forðanum eru síðan innlán í eigu skilanefnda og innlendra innlánsstofnanna (skilanefndir með um 95% af þeim innlánum). Nú fer óðum að líða að útgreiðslum skilanefnda til kröfuhafa og væntanlega mun þessum fjármunum verða ráðstafað fyrst. Þar sem kröfuhafar eru að verulegu leyti erlendir aðilar munu þessir fjármunir hverfa úr forðanum um leið og þeir eru greiddir út. Því má ætla að gjaldeyrisforðinn verði í kringum 600 milljarðar króna þegar útgreiðslunum verður lokið.

Inn, út, inn inn, út
Þrátt fyrir að gjaldeyrisforðinn muni að öllum líkindum fara hratt minnkandi þá er fjármögnun ríkisins í erlendri mynt trygg og lítil ástæða til að hafa áhyggjur af henni um margra ára skeið. Hins vegar er ljóst að Seðlabankinn/ríkissjóður hefur lítið svigrúm til annars á næstu árum en að ráðstafa gjaldeyrisforðanum í afborganir af erlendum lánum og vaxtagreiðslur í erlendri mynt. Lítið svigrúm verður því til að mæta mögulegu útflæði gjaldeyris vegna afnáms gjaldeyrishafta, sem stendur til að afnema á næstu 25 mánuðum eða svo.

Sjá nánari umfjöllun: