Misvísandi vísbendingar - viðskiptaafgangur ofmetinn?

Misvísandi vísbendingar - viðskiptaafgangur ofmetinn?

Eins og staðan er í dag þá er erfitt að staðfesta út frá hagtölum hvernig undirliggjandi flæði krónunnar hefur verið að þróast. Einkum er hér átt við að viðskiptajöfnuður, eins og hann er birtur í hagtölum Seðlabankans, segir okkur lítið um hversu mikils gjaldeyrisþjóðin er nettó að afla/eyða.

Annar mælikvarði er því birtur samhliða opinberum tölum um viðskiptajöfnuð þar sem hlutur innlánsstofnana í slitameðferð er undanskilinn, þ.e. þau áhrif sem gömlu bankarnir hafa á þáttatekjur (undirliður viðskiptajafnaðar). Báðir þessir mælikvarðar gefa hins vegar takmarkaða mynd af heilsufari krónunnar þegar litið er fram á veginn, þar sem mælikvarðinn sem tekur út innlánsstofnanir í slitameðferð er einnig meingallaður.

Ástæðan er einkum sú að þegar verið er að skoða áhrif gömlu bankanna þá er ekki tekið tillit til skiptingu eigna þrotabúanna. Litið er á innlánsstofnanir í slitameðferð sem innlendan aðila og flokkast því eignir þeirra sem slíkar. Samkvæmt mati í skýrslunni „Hvað skuldar þjóðin“ kemur m.a. fram að þegar búið er að greiða út úr þrotabúum bankanna fá erlendir aðilar í hendurnar krónueignir sem nema nettó 676 milljörðum króna. Þetta er fjárhæð sem þjóðarbúið þarf nettó að standa undir þegar fram líða stundir - hvort sem litið er til vaxta- eða höfuðstólsgreiðslna. Greiningardeild fékk út svipaða tölu og skýrsluhöfundar síðastliðið vor og var þá metið að nettó krónueign erlendra aðila í þrotabúum bankanna væri á bilinu 500-550 milljarðar króna. Væntanlega mun þessi stærð skýrast með tíð og tíma en ljóst er að niðurstöðuna verður að setja í samhengi við mögulegt afnám gjaldeyrishafta og styrkleika krónunnar fram á veginn.

Sjá nánari umfjöllun: