Skuldir heimila lækka

Skuldir heimila lækka

Í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika má finna yfirlit yfir skuldastöðu heimilanna. Þar kemur m.a. fram að skuldir íslenskra heimila hafi hæst farið í 129% af landsframleiðslu (VLF), eða tæpa 2.000 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi 2009. Nýjasta mat Seðlabankans er að skuldirnar séu í dag um 107% af áætlaðri VLF 2011. M.v. mat Seðlabankans á VLF ársins 2011 í síðustu Peningamálum þýðir það að heimilin í landinu skulda í dag í kringum 1.800 ma.kr. (m.v. annan ársfjórðung). Skuldastaða heimilanna hefur því lagast um tæplega 8% eða 150 ma.kr. (m.v. verðlag hvers árs). Sértækar aðgerðir til lækkunar skulda, s.s. 110% leiðin, sem og endurútreikningur gengistryggðra íbúða- og bílalána leika þar stórt hlutverk. Einnig má vera að hluti fólks hafi gengið í að greiða niður skuldir sínar líkt og samdráttur í peningamagni (M3) frá ágúst 2009 til mars 2011 bendir til.

Skuldastaða heimila lækkar - Vanskil lítið minnkað
Lækkun skulda vegna endurútreiknings og niðurfærslu lána nam 173 ma.kr. nú í lok september. Þar af eru 135 ma.kr. vegna endurútreiknings gengistryggðra lána og 38 m.a vegna niðurfærslu annarra lána (110% leiðin og sértæk skuldaaðlögun). Talsverður munur er á þeirri kröfu sem fjármálafyrirtæki eiga á heimilin eftir því hvort staðan er skoðuð út frá sjónarhóli heimilanna eða fyrirtækjanna.

Sjá nánari umfjöllun: