Verðbólgan í desember mælist 0,36%

Verðbólgan í desember mælist 0,36%

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,36% í desember frá fyrri mánuði samkvæmt nýrri verðmælingu Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar því lítillega milli mánaða og fer úr 5,2% í 5,3% í desember. Verðbólgan var heldur meiri en greiningardeild gerði ráð fyrir en við spáðum 0,2% hækkun VNV í desember. Helsta frávikið frá okkar spá var rífleg hækkun á mat og drykkjarvörum, einnig var hækkun flugfargjalda meiri en við áætluðum.

Erfitt er að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað veldur svo mikilli hækkun á mat og drykkjarvörum nú, en væntanlega eru kaupmenn að nýta jólamánuðinn til að velta kostnaðarhækkunum fyrr á árinu yfir á neytendur. Ef við horfum á matar- og drykkjarliðinn síðastliðin ár virðist desembermánuður nú nokkuð skera sig úr. Þó mátti sjá svipaðar hækkanir á matarliðnum á árunum 2007 og 2008, en þær mátti helst rekja til óstöðugleika í gengi krónunnar, sem varla er hægt að kenna um nú. Eins og við fjölluðum um í gær þá hefur verðbólga framleiðsluvara að undanförnu verið umfram almennar hækkanir á vísitölu neysluverðs. Uppsöfnuð þörf innlendra framleiðenda til að velta hrávöruhækkunum yfir á neytendur kann að skýra það mikla stökk sem nú verður í matarliðnum í desembermánuði. Í Markaðspunktum í gær kom einmitt fram að framleiðendur virðast eiga auðveldara með að hækka verð sín yfir hátíðirnar, en neytendur setja verðhækkanir eflaust síður fyrir sig þegar kaupa á í jólamatinn.

Að mati greiningardeildar er enn útlit fyrir að ársverðbólgan muni fara lækkandi þrátt fyrir að umtalsverð verðbólga sé í pípunum í febrúar og mars. Veiking krónunnar á síðustu vikum leiðir til þess að bráðabirgðaspá okkar til næstu þriggja mánaða hækkar lítillega.

Sjá nánari umfjöllun: