Rúm landsframleiðsla í höndum 60% heimila

Rúm landsframleiðsla í höndum 60% heimila

Ýmislegt hefur verið sagt og ritað um skuldastöðu heimilanna upp á síðkastið. Áhugavert er að skoða skattatölfræði Ríkisskattstjóra (RSK) en þar má finna yfirlit yfir skuldir og eignir heimila eftir álagningu hvers árs. M.v. tölur RSK hefur hrein eign heimila lækkað úr tæplega 140% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2008 í tæplega 100% af VLF árið 2011.
Þrátt fyrir að fallið sé hátt þá endurspeglar það þá miklu aukningu sem varð á eign einstaklinga á uppsveifluárunum þegar m.a. fasteignir, sem eru langstærsta eign heimila, hækkuðu mikið í virði. Þá benda tölurnar til þess að misskipting eigna meðal íslenskra heimila hafi aukist frá og með hruni. Eitt augljósasta merki þessa er eignarskattstofn heimilanna.

• Í dag eiga um 60% heimilanna jákvæða eignarskattstofninn. Síðustu 10 ár hefur skiptingin þó verið á þá vegu að um 80% heimila áttu þennan jákvæða eignarstofn, á sama tíma og 20% fjölskyldna voru með neikvæðan stofn.

• Þessi 20% voru líkast til að verulegu leyti ungt fólk sem var að koma undir sig húsaskjóli, en um 20% þjóðarinnar hefur alla jafnan verið á aldrinu 18-32 ára. Hlutfall heimila með neikvæðan eignarskattstofn hefur nú tvöfaldast úr 20% í 40%, en ljóst er að það er ekki vegna aukins hlutfalls ungra fjölskyldna sem hefja heimilshald oft með lán á bakinu.

• Erfitt er að segja til um hver staða hvers heimilis með neikvæðan stofn í dag var fyrir hrunið. Það liggur hins vegar fyrir að ástæða þess að margir gátu fjárfest í eignum sem höfðu hækkað um 70% að raunvirði frá 2002 til 2008, ef meðalvirði keyptrar fasteignar er skoðað, var vegna stóraukinnar lántöku. Á sama tíma og ráðstöfunartekjur heimilanna jukust „aðeins“ um rúmlega 30% að raunvirði, var útlánaukningin á raunvirði rúmlega 40%.


Sjá nánari umfjöllun: 020212_eignarskattstofn.pdf