Náttúrulegt atvinnuleysi eykst á Íslandi

Náttúrulegt atvinnuleysi eykst á Íslandi

Ísland hefur lengi getað státað sig af háu atvinnustigi, en atvinnuleysi á Íslandi hefur sögulega séð verið með því minnsta í heiminum. Samband atvinnuleysis og verðbólgu er mörgum Íslendingum þekkt en grundvallarhagfræðikenningar byggjast á því að eins konar skipti þurfi að verða á milli þessara tveggja þátta – þ.e. fórna þarf atvinnustigi fyrir lækkandi verðbólgu og öfugt. Þó hafa hagfræðingar í seinni tíð (t.a.m. Edmund Phelps) bent á að það sé einungis skammgóður vermir að fórna verðlaginu fyrir aukna atvinnu, þar sem til lengri tíma leiti atvinnustigið alltaf í sitt náttúrulega stig.


Á síðustu árum hefur mælt atvinnuleysi á Íslandi aukist talsvert. Nýjustu tölur OECD sýna jafnframt að náttúrulegt atvinnuleysi, það atvinnuleysi sem hagkerfið leitar í til lengri tíma, hefur tvöfaldast á síðustu 20 árum, úr 2,5% í 5%. Þó er náttúrulegt atvinnuleysi enn afar lágt á alþjóðlega vísu þrátt fyrir að Noregur hafi tekið fram úr Íslandi á þessum mælikvarða árið 2006, fyrst hinna Norðurlandanna. Mikið langtímaatvinnuleysi, sem leiðir til stöðnunar í vinnuaflinu, og hækkandi lágmarkslaun m.v. meðallaun hafa áhrif á stig náttúrulegs atvinnuleysis. Nýjustu tölur frá Hagstofu Íslands og OECD sýna að hlutfall atvinnulausra sem hafa verið án vinnu í lengur en eitt ár (af heildarfjölda atvinnulausra) var í fyrra í fyrsta skipti hæst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.


Sjá nánari umfjöllun: 300112_nairu.pdf