Spáum 0,7% hækkun VNV í apríl

Spáum 0,7% hækkun VNV í apríl

Greiningardeild spáir 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í apríl. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólgan nema 6,3% í apríl samanborið við 6,4% í mars. Hagstofan birtir niðurstöður úr verðmælingu fyrir apríl á föstudaginn í næstu viku.

Einkum og sér í lagi verða það áhrif af veikingu krónunnar á síðastliðnum mánuðum sem mun skila umtalsverðu til verðbólgunnar að þessu sinni. Í raun metum við sem svo að gengisáhrifin verði um 0,5% af hækkun VNV í aprílmánuði. Einnig munu samningsbundnar hækkanir vegna kjarasamninga halda áfram að skila sér í hærra vöruverði. Gangi veiking krónunnar ekki að verulegu leyti til baka bendir flest til þess að há verðbólga verði hér viðvarandi fram á næsta haust, nema svo ólíklega vilji til að fasteignaverð togi VNV niður eða t.d. eldsneytisverð haldi áfram að lækka.


Sjá nánar: Verðbólgan í apríl (303 KB)