Frekari vaxtahækkanir í pípunum

Frekari vaxtahækkanir í pípunum

Seðlabanki Íslands hækkaði vexti um 50 punkta í dag. Hinir virku vextir Seðlabankans, þ.e. meðaltal innstæðubréfa og innlánsvaxta, er því í dag 4,88%. Að okkar mati er útlit fyrir frekari vaxtahækkanir á árinu enda bendir flest til þess að verðbólga næstu árin verði langt yfir markmiðum bankans. Við teljum þó að Seðlabankinn muni láta 25 punkta vaxtahækkun duga við ákvörðun vaxta í júní, haldi þeim óbreyttum í ágúst, en gefi svo aftur í þegar komið er fram á haustið.

Ástæðan er einkum sú að við næstu vaxtaákvörðun verður einungis ein verðbólgumæling komin í hús, gengi krónunnar mun að öllum líkindum haldast stöðugt (eða jafnvel styrkjast) og verðbólguhorfur til skemmri tíma séð batnað. Í ágúst munu svo júní og júlí verðbólgutölur liggja fyrir, en við teljum ágætis líkur á umtalsverðri verðhjöðnun í júlí, sem mun slá á vaxtaþorsta peningastefnunefndar. Hins vegar þegar við horfum fram á haustið teljum við að sagan endurtaki sig, þ.e. að krónan gefi eftir, verðbólgan fari hækkandi og í framhaldi verði aðhaldsstigið aukið. Því gerum við nú ráð fyrir 75 punkta hækkun vaxta til ársloka, og að vextir muni hækka um 100 punkta á því næsta.

Sjá nánar: Vaxtaákvörðun og Peningamál (299 KB)