Innflutningur eykst umfram útflutning

Innflutningur eykst umfram útflutning

Hagstofan birti í morgun tölur yfir vöruskipti á fyrstu fjórum mánuðum ársins en vöruskiptajöfnuður var jákvæður um 28 milljarða á tímabilinu. Nýjar tölur fyrir þjónustuviðskipti á fyrsta fjórðungi 2012 voru einnig kynntar en þjónustujöfnuðurinn virðist hafa verið neikvæður um rúma 5 milljarða króna fyrstu 3 mánuði ársins. Að jafnaði hefur fyrsti fjórðungur verið neikvæður hvað varðar þjónustuviðskiptin, aftur á móti vekur það athygli að þjónustujöfnuðurinn hefur ekki verið jafn óhagstæður frá hruni en jöfnuðurinn var einnig talsvert neikvæður á fjórða fjórðungi síðasta árs. Á síðasta hálfa ári hafa því nettó 10 milljarðar króna farið úr landi í gegnum þjónustuviðskipti þrátt fyrir 11% aukningu í komu ferðamanna til landsins á þessu tímabili (okt-apr). Utanlandsferðir Íslendinga vega þar þungt en 16% aukning var í ferðum Íslendinga út fyrir landsteinana síðustu sex mánuði. Að undanskilinni vænni aukningu í vöruútflutningi í upphafi ársins hefur aukningin í vöruinnflutningi verið meiri en í útflutningi frá síðasta hausti og gengur því smám saman á vöruskiptaafganginn. Eins og greiningardeild benti á í nýjustu hagspá sinni byggist geta landsins til að greiða af erlendum lánum sínum á viðskiptaafgangnum. Fram að þessu hefur vöru-og þjónustujöfnuðurinn tekið að sér gjaldeyrissköpunina þar sem nettó þátttekjur landsins (vaxta- og arðgreiðslur) hafa verið mjög neikvæðar allt frá hruni. Sú þróun sem hefur átt sér stað síðustu mánuði, það er minn kandi afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum, veikir því undirstöður krónunnar.

Sjá nánar: 310512_Innflutningur_eykst_umfram_útflutning.pdf