Spáum 0,1% hækkun VNV í júní

Spáum 0,1% hækkun VNV í júní

Greiningardeild spáir 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í júní. Ef spáin gengur eftir mun ársverðbólgan halda áfram að lækka og verða 4,9% í júní, samanborið við 5,4% í maí. Bráðabirgðaspá til næstu mánaða lækkar en óvenju mikil óvissa er í spánni þar sem örar breytingar hafa verið bæði á gengi krónunnar og á erlendum hrávörum. Gangi bráðabirgðaspáin eftir mun ársverðbólgan fara niður í 4,2% strax í júlí.

Krónan hefur frá því í apríl styrkst um tæp 5% á sama tíma og hrávöruverð hefur farið lækkandi á heimsmarkaði. Slík þróun hlýtur að draga verulega úr hækkunarþörf kaupmanna og birgja, þrátt fyrir að mánuðina þar á undan hafi verið umtalsverð veiking á gengi krónunnar. Ræður þar mestu að bæði hefur krónan komið nokkuð hratt til baka og ekki síður standa væntingar til að krónan haldist fremur stöðug eða styrkist á næstu mánuðum. Miðað við þróun hrávöruverðs úti í heimi sem og ef litið er til raunálagningar olíufélaganna (metið út frá þróun heimsmarkaðsverðs og gengi dollars) þá bendir allt til þess að frekari verðlækkanir séu framundan á eldsneytisverði hér heima. Ef við gefum okkur að raunálagning muni færast í átt að sögulegu meðaltali ætti að vera nú þegar svigrúm fyrir 7-8 kr. lækkun á hvern bensínlítra, en slíkt myndi skila um 0,2% lækkun í VNV t.d. í júlí verðmælingu Hagstofunnar.

Sjá nánar: Verðbólguspá júní 2012 (182 KB)