Fjárfestingarleiðin: Fasteignir miðsvæðis á tombóluverði

Fjárfestingarleiðin: Fasteignir miðsvæðis á tombóluverði

Frá því í mars sl. hefur Seðlabankinn boðið upp á hina svokölluðu fjárfestingarleið í gjaldeyrisútboðum sínum. Þar hefur fjárfestum staðið til boða að selja evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi. Bónusinn fyrir þá fjárfesta sem kjósa að koma með gjaldeyri í gegnum þessa leið felst í því að helmingur þeirrar fjárhæðar sem flutt er til landins er seldur á álandsgengi („onshore“ gengi) og hinn helmingurinn á útboðsgengi, þ.e. með ríflegum afslætti.

Horfa fjáfestar í auknum mæli til fasteignakaupa?
Fasteignir í miðbæ Reykjavíkur (mældar í evrum) eru meðal þeirra ódýrustu í samanburði við aðrar borgir í Evrópu. Þannig er Reykjavík í 6. neðsta sætinu og austur-evrópskar borgir í löndum eins og Möltu, Króatíu, og Serbíu að skora hærra. Ef tekið er mið af þeim afslætti sem fæst í gegnum fjárfestingarleiðina þá fellur Reykjavík hins vegar niður um tvö sæti og mælist þá fasteignaverð í Reykjavík í 4. neðsta sætinu í Evrópu. Þannig er fasteignaverð hvergi lægra í Evrópu nema í Búlgaríu, Makedóníu og Moldavíu miðað við þennan samanburð.

Verðmiði fasteigna í Reykjavík er því ekki hár í alþjóðlegum samanburði og færa má rök fyrir því að Reykjavík ætti að skora hærra. Þrátt fyrir að atvinnuleysi sé í hærri kantinum á okkar mælikvarða þá er 7-8% atvinnuleysi á mælikvarða annarra landa ekki talið hátt. Þá hafa skýr merki komið fram sem undirstrika að efnahagsbatinn sé hafinn, auk þess sem Ísland er í ríkari helmingi Evrópulanda samkvæmt mælingum frá Eurostat (sjá Markaðspunkta um Lífskjör evrópskra heimila).

Í ljósi þessa er ekki ólíklegt að fjárfestar fari að horfa í auknum mæli til fasteigna í komandi útboðum Seðlabankans, hvort sem um er að ræða Íslendinga eða aðra Íslandsvini!

Sjá umfjöllun í heild sinni: Fjárfestingarleiðin:  Fasteignir_miðsvæðis_á_tombóluverði.pdf