Seðlabankinn saddur í bili: Óbreyttir vextir í skjóli gengisstyrkingar

Seðlabankinn saddur í bili: Óbreyttir vextir í skjóli gengisstyrkingar

Seðlabankinn hélt vöxtum óbreyttum í dag sem var í takti við spár allra greiningaraðila. Virkir vextir eru því enn 5,13%. Ef verðbólgu- og gengisspá bankans gengur eftir þá mun aðhald peningastefnunnar aukast skarpt á næstu fjórðungunum.

Verðbólguspá Seðlabankans byggist á þeirri forsendu að krónan haldist jafn sterk og hún er nú. Við teljum það ósennilegt nema með tilstuðlan Seðlabankans sjálfs. Við reiknum með að krónan veikist í vetur, líkt og hún hefur gert undanfarin tvö ár með samsvarandi verðbólguáhrifum. Byggt á þeirri skoðun okkar teljum við líklegt að Seðlabankinn grípi aftur til hækkunar stýrivaxta fyrir lok árs.

Yfirlýsingin
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að horfur eru á meiri hagvexti en gert var ráð fyrir í síðustu Peningamálum. Þá eru tónaðar niður áhyggjur nefndarinnar af ástandinu í Evrópu sem þá var sagt geta haft „[…] umtalsverð áhrif á hagvöxt og verðbólgu hér á landi.“ Skuldakreppan virðist því ekki enn vera orðin sá örlagavaldur sem nefndin óttaðist við síðustu vaxtaákvörðun.

Þvert á móti virðist örlagavaldurinn í nýjustu spá bankans vera sterkara gengi krónunnar. Gengisstyrking síðustu mánaða er, ásamt lækkandi bensínverði, nefnd sem helsta ástæða þess að verðbólga hefur hjaðnað hraðar en búist var við, og aðalástæða þess að ný spá gerir ráð fyrir mun hraðari hjöðnun verðbólgu en sú síðasta.

Sjá umfjöllun í heild sinni: 22082012_Vaxtaákvörðun.pdf