Verðbólgan í ágúst: 0,15% verðhjöðnun

Verðbólgan í ágúst: 0,15% verðhjöðnun

Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,15% í ágúst frá fyrra mánuði. Ársverðbólgan heldur áfram að lækka og fer úr 4,6% niður í 4,1%. Spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir hækkunum á bilinu 0,3% til 0,5%, en við spáðum 0,5% hækkun að þessu sinni. Ekki er annað að sjá en að styrking krónunnar sé að skila sér með myndarlegum hætti inn í VNV ásamt því sem aukin verðsamkeppni t.d. á flugmarkaði og matvörumarkaði er að hafa áhrif, tímabundið í það minnsta.

Ljóst er að verðbólgutölurnar sem birtust í morgun eru ekki aðeins á skjön við spár greiningaraðila heldur virðist vera sem niðurstaðan sé talsvert undir verðbólguspá Seðlabankans sem birt var í síðustu viku (PM 2012/3). Til að hin nýbirta spá þeirra gangi eftir þá reiknast greiningardeild til að verðbólgan í september þurfi að mælast 1,9% milli mánaða. Til samanburðar gerir bráðabirgðaspá okkar ráð fyrir 0,6% hækkun í næsta mánuði. Í ljósi þessa teljum við ólíklegt að vextir Seðlabankans hækki á næsta vaxtaákvörðunarfundi í október næstkomandi. Verðbólguspá Seðlabankans byggist á þeirri forsendur að gengi krónunnar haldist óbreytt út spátímabilið, forsenda sem heldur ekki lengur eftir rúmlega 3% veikingu síðustu viku eða svo. Með þessi atriði í huga teljum við líklegt að vextir hækki áður en árið er á enda, en hvort það verður í nóvember eða desember veltur á krónunni!

Sjá umfjöllun í heild sinni: Verðbólga_ágúst_2012.pdf