Vextir óbreyttir: Atrenna að frekari vaxtahækkunum

Vextir óbreyttir: Atrenna að frekari vaxtahækkunum

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að hún hefði ákveðið að halda vöxtum óbreyttum. Þrátt fyrir óbreytta vexti nú þá er það okkar mat að frekari vaxtahækkanir séu framundan og teljum við að öðru óbreyttu að vextir hækki um a.m.k. 25 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi 14. nóvember nk. Í rauninni er fullyrt í yfirlýsingunni að vextir verði hækkaðir.

Úr yfirlýsingu Peningastefnunefndar um þörfina á auknu aðhaldi:

“Að hve miklu leyti þessi aðlögun á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, en miðað við óbreyttar horfur um verðbólgu og efnahagsbata er líklegt að nafnvextir þurfi að hækka frekar á næstunni.”

Ákvörðunin kom okkur á óvart, einkum þegar horft er til þess að krónan er búin að veikjast um ríflega 6% frá síðasta fundi Peningastefnunefndar. Bankinn tiltekur hins vegar að verðbólguhorfur hafi ekki breyst mikið frá síðasta fundi þrátt fyrir að bankinn hafi lagt óhóflega bjartsýna gengisforsendu til grundvallar í síðustu verðbólguspá sinni. Okkar mat er hins vegar að verðbólguhorfur hafi í raun versnað samhliða því sem krónan hefur gefið eftir. Þá vekur það einnig athygli að þrátt fyrir að krónan ein og sér hefði verið nægilega góð forsenda til grundvallar vaxtahækkun að þessu sinni þá fullyrti AGS aðeins nokkrum dögum áður að taumhald peningastefnunnar þyrfti að aukast. Seðlabankastjóri sagðist í raun ekki vera ósammála því mati þrátt fyrir að vöxtum hafi verið haldið óbreyttum að sinni.

Líkt og við bentum á í síðustu stýrivaxtaspá okkar hafa verðbólguvæntingar lækkað nokkuð undanfarna mánuði í takt við hjöðnun verðbólgunnar, þótt þær séu enn langt yfir markmiði. Því hefði hugsanlega gefist tækifæri fyrir bankann til að nýta þann meðbyr og sýna staðfestu sína við að ná niður verðbólgu í verki með því að hækka vexti nú. Enda þótt greiningardeild efist um beina leiðni peningastefnunnar hefði þannig verið hægt að nýta vaxtaákvörðunina í væntingastjórnunarskyni til að toga verðbólguvæntingar nær markmiði bankans.

Sjá nánari umfjöllun:

Stýrivaxtaákvörðun í október 2012