Hrein staða þjóðarbúsins: Skuldum við meira en við höldum?

Hrein staða þjóðarbúsins: Skuldum við meira en við höldum?

Seðlabanki Íslands hefur um alllangt skeið birt tölur um hreina stöðu þjóðarbúsins við útlönd án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð (gömlu bankarnir, hér eftir ILST)*. Með þessari framsetningu er gerð tilraun til að greina á milli þeirra gríðarlegu skulda sem þrotabú gömlu bankanna skilja eftir sig, og þjóðarbúið þarf ekki að standa skil á, og svo annara skulda sem þjóðarbúið þarf að lokum að greiða til baka.

Ef tölur Seðlabankans um hreina stöðu við útlönd án ILST fyrir 2. ársfjórðung 2012 eru skoðaðar þá var hún neikvæð um 1.056 ma.kr. eða 65% af landsframleiðslu. Í þessum tölum sést ekki að á þeim tímapunkti áttu ILST ríflega 328 ma.kr. í gjaldeyrisinnlánum í Seðlabanka Íslands (sem er þá partur af gjaldeyrisforða Seðlabankans), sem var (og er) í raun að mestu erlend skuldbinding Seðlabankans, en er ekki flokkuð sem slík þar sem ILST er skilgreindur sem innlendur lögaðili.

Í september 2012 tóku hins vegar fjármálastofnanir í slitameðferð 262 ma.kr. af erlendum gjaldeyri út úr Seðlabanka Íslands (og sömuleiðis tugi milljarða mánuðina á undan). Heildarinnlán þessara aðila nema nú 21 ma.kr. og hafa því í heildina lækkað um 300 ma.kr. frá lokum 2. ársfjórðungs, og sjást merki þess í samsvarandi lækkun gjaldeyrisforða Seðlabankans, eins og við var að búast.

Sjá nánari umfjöllun:
Hrein_staða_verri.pdf