Verðbólguspá fyrir október ásamt bráðabirgðaspá

Verðbólguspá fyrir október ásamt bráðabirgðaspá

Greiningardeild spáir 0,6% hækkun VNV í október. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan halda áfram að hækka og fara í 4,5% samanborið við 4,3% í september. Sömuleiðis teljum við útlit fyrir nokkra verðbólgu mánuðina þar á eftir og að árstaktur verðbólgunnar verði rétt fyrir neðan 5% í árslok.

Eins og sjá mátti í síðustu verðbólgutölum þá hafði um 6% gengisveiking krónunnar frá því í ágústmánuði fremur lítil áhrif á verðbólgutölurnar í september. Einkum voru það „flökkuliðir“ eins og eldsneytisverð, flugfargjöld og útsölulok sem báru uppi stærstan hluta hækkunarinnar. Því má segja að nú reyni fyrst verulega á hvort gengisveikingin frá því í sumar fari að skila sér í hærra vöruverði.

Er óvissan upp á við?
Færa má fyrir því ágætis rök að þar sem gengisstyrking krónunnar var mjög skammvinn hafi áhrif hennar að takmörkuðu leyti komið fram í lægra vöruverði, og þar af leiðandi sé U-beygja krónunnar ekki sama ávísun á verðhækkanir og ella. Þetta atriði virðist bersýnilega koma í ljós ef skoðuð er t.d. verðþróun á mat- og drykkjarvörum (án mjólkurafurða). Það sem kemur á óvart er að mat- og drykkjarvörur lækkuðu einungis svo nokkru nemur í ágústmánuði sl. en fyrirfram hefði e.t.v. mátt ætla að um 12% styrking krónunnar (frá mars til ágúst) myndi skila sér í enn meiri verðlækkunum en raunin varð. Skýringarnar á þessu geta verið margar; getur þar komið til m.a. aukin álagning birgja eða smásala, aukinn launakostnaður, hækkandi heimsmarkaðsverð á afurðum, eða jafnvel skortur á trú þess efnis að gengisstyrkingin sé varanleg. Með því að skoða þróun á helstu hrávörum á þessu ári er þó hæpið að þróun á heimsmarkaðsverði sé ástæða til uppsafnaðrar hækkunarþarfar og því má ætla að önnur atriði hafi vegið þyngra.

Þrátt fyrir að veiking krónunnar sé ekki endilega ávísun á verðhækkun á matvörum þá eru aðrir þættir líklegir til að hækka á komandi mánuðum. Sem dæmi þá teljum við að verð á nýjum innfluttum bílum muni koma til með að hækka, enda koma áhrif af styrkingu og veikingu alla jafna fram með nokkurri töf. T.a.m. voru áhrif styrkingar krónunnar fyrr á árinu enn að koma fram í septembermælingu Hagstofunnar. Einnig er það mat okkar að þau jákvæðu verðáhrif sem sáust af 25% lækkun á flugfargjöldum í sumar (hafði -0,5% áhrif á VNV í júlí og ágúst) séu ekki komin til að vera og gætu því haldið áfram að koma niður á verðbólgutölum á næstunni.
Því tökum við að einhverju leyti undir að veikingin í sumar hafi verið of skammvinn til að skila sér inn í verðlag að fullu, en eftir sem áður teljum við að viðsnúningur krónunnar sé það mikill að áhrifin verði greinilegri á næstu mánuðum. 

Sjá nánari umfjöllun:

Verðbólguspá fyrir október ásamt bráðabirgðaspá.pdf