Rofar til í endurfjármögnun Landsbankabréfs

Rofar til í endurfjármögnun Landsbankabréfs

Líkt og fram hefur komið í máli Seðlabankastjóra og fleiri er mikið hagsmunamál að lengt verði í skuldabréfi Nýja Landsbankans til þess gamla. Eins og sjá má í síðasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans nema afborganir af þessum lánum umtalsverðum fjárhæðum og eru meiri en allar aðrar afborganir lána íslenskra fyrirtækja eftir árið 2014. Að öðru óbreyttu þyrfti Nýi Landsbankinn því á næstu árum að safna miklu magni gjaldeyris til að mæta afborgunum í erlendri mynt, eða treysta á Seðlabankann og forða hans í þeim efnum.

Ef við gefum okkur að bréfið verði greitt með jöfnum afborgunum til ársins 2033 í stað 2018 (lenging um 15 ár) myndu höfuðstólsgreiðslurnar lækka úr 70 milljörðum króna niður í tæpa 15 milljarða króna á hverju ári (veðskuldabréf + skilyrt bréf), og fara úr rúmum 4% af landsframleiðslu niður í tæpt prósentustig af landsframleiðslu. Eins má sjá að afborgunarferill landsins verður strax léttari þegar komið er fram á árið 2014. Þó er fullsnemmt að taka fram kampavínsflöskurnar strax, einkum í ljósi þess að töluverð óvissa ríkir um framtíðarviðskiptajöfnuð landsins og þeirra áhrifa sem þrotabú gömlu bankanna hafa á skuldastöðu þjóðarbúsins. Hins vegar er alveg á hreinu að lenging lánsins styrkir undirstöður krónunnar verulega, a.m.k. á meðan við erum í höftum.

Endurfjármögnun Landsbankabréfs