Stýrivaxtaákvörðun: Spáum óbreyttum vöxtum

Stýrivaxtaákvörðun: Spáum óbreyttum vöxtum

Greiningardeild spáir óbreyttum vöxtum við vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 12. desember. Að þessu sinni eru veigamestu rökin í spá okkar ekki efnahagslegir grunnþættir, heldur sú einfalda staðreynd að peningastefnunefnd markaði mjög skýra stefnu með yfirlýsingu sinni eftir síðustu stýrivaxtaákvörðun – en heldur fátt hefur breyst frá þeim tíma. Miðað við núverandi forsendur telur peningastefnunefnd Seðlabankans bersýnilega að ekki sé þörf á frekari stýrivaxtahækkunum til að ná verðbólgumarkmiði bankans á næstu 3 árum:

„Grunnspá Seðlabankans bendir til þess að núverandi nafnvextir bankans nægi til þess að verðbólgumarkmiðið náist á spátímanum. Það er þó m.a. háð því að endurskoðun kjarasamninga á nýju ári samrýmist hjöðnun verðbólgu að markmiðinu.“
- Úr yfirlýsingu peningastefnunefndar 14. nóvember 2012

Ef verðbólguspá bankans gengur eftir, þá er vissulega rétt að bankinn mun ná hæfilegu aðhaldsstigi (raunvöxtum um 3%) um svipað leyti og hann spáir því að slakinn hverfi úr hagkerfinu, án þess að hreyfa nafnvextina frekar. Með öðrum orðum myndi aðhald peningastefnunnar allt koma fram í gegnum lægri verðbólgu.

Sjá nánari umfjöllun:
Stýrivaxtaspá fyrir desember 2012