Bóla eða bati á eignamörkuðum?

Bóla eða bati á eignamörkuðum?

Eignasafn heimila samanstendur af fasteignum, skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum. Eins og sést á neðangreindri mynd þá urðu eignir heimila fyrir mismiklum skelli í kjölfar hrunsins; hlutabréf nánast þurrkuðust út í árslok 2008 á meðan skuldabréf hafa hækkað svo til samfleytt frá hruni. Í kjölfar þess átti sér stað tímabundin aðlögun á fasteignamarkaði en frá árslokum 2010 hefur fasteignamarkaðurinn verið hægt og bítandi að rétta úr kútnum. Fasteignakaup eru alla jafnan stærsta fjárfesting heimila og er því sú eign sem vigtar þyngst í heildareignasafni heimila.

 

Er bólumyndun að eiga sér stað?
Hækkandi eignaverð myndar auðsáhrif þar sem aðgengi að lánsfé eykst (undirliggjandi veð hækka í verði) og þar með eykst kaupgeta með tilheyrandi neyslu eða kaupum á öðrum eignum. Hækkandi eignaverð helst því gjarnan í hendur við almenna útlánaaukningu í hagkerfinu. Eignaverðshækkanir geta jafnframt verið drifnar áfram af væntingum um frekari verðhækkanir og skapast þá hætta á að hjarðhegðun grípi um sig og peningar streymi á sömu markaði.

Að mati greiningardeildar er ekki tímabært að tala um að bólumyndun sé að eiga sér stað í eignaverði heimila þar sem hækkanir á ýmsum eignamörkuðum undanfarin misseri eru nokkuð dæmigerðar fyrir markaði í bata. Þróun fasteignaverðs hefur til að mynda almennt haldist í hendur við aukin umsvif í hagkerfinu. Aðra sögu er þó að segja af ríkistryggðum verðbréfum, einkum stutta endanum, en gjaldeyrishöftin hafa leitt til eftirspurnar og verðlagningar sem er langt umfram verðbólguhorfur sem dæmi.

 

Sjá umfjöllun í heild sinni: Bóla eða bati á eignamörkuðum.pdf