Vextir óbreyttir: Fátt óvænt í stýrivaxtaákvörðun dagsins

Vextir óbreyttir: Fátt óvænt í stýrivaxtaákvörðun dagsins

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni. Þetta er í takt við síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar og spár greiningaraðila, en eftir vaxtahækkunina 14. nóvember síðastliðinn var það mat bankans að núverandi nafnvextir dygðu til að ná verðbólgumarkmiði á spátíma. Sú sýn hefur ekki breyst.

Nefndin setti þó þann fyrirvara að óbreytt nafnvaxtastig væri háð því að endurskoðun kjarasamninga á nýju ári samrýmdist hjöðnun verðbólgu að markmiði. Í yfirlýsingu nefndarinnar í dag var þessi fyrirvari ítrekaður, en til viðbótar við launaákvarðanir er nefnt að gengi krónunnar geti ráðið miklu um verðbólguþróun, og þar með þörfina á stýrivaxtahækkunum, á næstu misserum.

Það má því segja að fátt hafi komið á óvart í stýrivaxtaákvörðun dagsins og rökstuðningi hennar. Erfitt er að finna frekari vísbendingar en þegar hafa komið fram um vaxtaferil bankans á næstu mánuðum í yfirlýsingu peningastefnunefndar eða orðum Seðlabankastjóra. Helst mætti nefna að svo virðist sem óvissa sé sýnu meiri nú í huga nefndarinnar en hún var í nóvember.

Sjá nánar: Stýrivaxtaákvörðun.pdf.